Teikning er ekki aðeins áhrifaríkari en skrift við að efla langtímaminni heldur er hún einnig gagnleg við úrvinnslu tilfinninga, segir Unnur Óttarsdóttir listmeðferðarfræðingur sem kom í Mannlega þáttinn í dag og sagði frá.

Í rannsókn Unnar, sem birtist nýlega í tímaritinu Art Therapy OnLine kemur fram að þátttakendur mundu teikningar mun betur en skrifuð orð, eða fimm sinnum betur.

Fyrsta rannsókn sinnar tegundar

Í rannsókninni voru 134 þátttakendur beðnir um að teikna merkingu orða og skrifa orð niður. Sumir voru beðnir um að rifja upp það sem þeir höfðu skrifað og teiknað eftir þrjár vikur og aðrir eftir níu vikur. Í báðum tilvikum var miðgildi þeirra teikninga sem þátttakendur mundu mun hærra en skrifaðra orða, eða tvö skrifuð orð á móti fimm teikningum sem þátttakendur mundu eftir þrjár vikur og fimm teikningar á móti einu skrifuðu orði eftir níu vikur. 

Unnur hóf rannsóknir á listmeðferð snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Hún hefur birt greinar um efnið, flutt fyrirlestra og kennt við háskóla hérlendis og erlendis. „Svo virðist sem maðurinn sé stilltur inn á að breyta teikningu í langtímaminni. Þetta er í fyrsta skipti sem rannsókn á teikningu og minni sem nær yfir svo langan tíma hefur verið gerð að því best er vitað og niðurstöðurnar eru afar áhugaverðar.“   

Teikning er ekki aðeins áhrifaríkari en skrift við að efla langtímaminni, að sögn Unnar, heldur er hún einnig gagnleg við úrvinnslu tilfinninga. Til viðbótar við ofangreinda rannsókn framkvæmdi Unnur rannsókn með fimm börnum sem höfðu upplifað álag eða orðið fyrir áföllum og áttu við námserfiðleika að etja. Þau teiknuðu myndir, meðal annars til að leggja námsefni á minnið. Í sumum teikningum barnanna mátti greina vísbendingar um að þau væru að vinna úr tilfinningum sem tengdust erfiðleikum eða áföllum. 

„Svo virðist sem teikning í listmeðferð færi börnum öryggi sem geri þeim kleift að tjá sig um flóknar og viðkvæmar tilfinningar á auðveldari hátt en í töluðu máli. Kenningar og aðferðir listmeðferðar eru mikilvægar til að skilja þetta ferli,“ segir Unnur. 

Unnur var í viðtali í Mannlega þættinum í dag, viðtalið má heyra í fullri lengd í spilaranum hér fyrir ofan.