Nokkrir tugir íslenskra ungmenna söfnuðust saman á Austurvelli í Reykjavík í hádeginu í dag. Þau, líkt og námsmenn víða um heim, mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum og ætla að halda því áfram þar til stjórnvöld bregðast við.

Ungmenni víða um heim hafa farið í verkfall undanfarnar vikur vegna aðgerðaleysis stjórnvalda í loftslagsmálum. Annan föstudaginn í röð söfnuðust námsmenn saman á Austurvelli. Það eru Landssamtök íslenskra stúdenta, ungir umhverfissinnar og Samband íslenskra framhaldsskólanema sem hafa boðað til verkfallanna. Þess er krafist að fjárframlög til loftslagsmála verði stóraukin.

Samskonar mótmæli fóru víðar fram í dag. Til að mynda söfnuðust um þrjú þúsund saman í Hamburg í Þýskalandi undir formerkjunum: föstudagar fyrir framtíðina. Greta Thunberg, sem er forsprakki verkfallanna, lét sig ekki vanta og tók þátt í verkfallinu.  Þá var einnig mótmælt í Antwerpen í Belgíu í gær þar sem á fjórða þúsund stúdentar skrópuðu í skóla til að mótmæla.