Mótmælin minntu á Ku Klux Klan

15.05.2017 - 06:25
In this Saturday, May 13, 2017, photo, with a Gen. Robert E. Lee statue in the background, people gather at Lee Park in Charlottesville, Va., to protest the plans to remove the monument. (Allison Wrabel/The Daily Progress via AP)
 Mynd: AP
Bandaríski þjóðernissinninn Richard Spencer leiddi hóp kyndilbera á laugardagskvöld sem mótmæltu fyrirhugaðri sölu yfirvalda í Charlottesville á styttu af Robert E. Lee. Borgarstjóri Charlottesville segir mótmælin hafa minnt á aðfarir Ku Klux Klan.

Tvenn mótmæli voru haldin í borginni á laugardag, bæði leidd af Spencer. Spencer er einn helst hvatamaður rísandi hreyfingar hægri manna í Bandaríkjunum sem kallar sig alt-right. Mótmælahópurinn mætti í almenningsgarðinn þar sem styttan af Lee stendur enn. Um daginn börðu þeir trommur og báru fána Suðurríkjanna, en um kvöldið mættu þeir með kyndla í hönd að sögn bandaríska almenningsútvarpsins, NPR. Spencer sagði að það sem sameini mótmælendur væri að þeir væru hvítar manneskjur, og þeim yrði ekki haggað. Kvöldmótmælin stóðu ekki yfir nema í um tíu mínútur, áður en lögregla varð að stía sundur andstæða hópa í garðinum.

Mike Signer birti yfirlýsingu á Facebook síðu sinni þar sem hann sagði mótmælendur annað hvort ekki hafa vitað betur, eða þeir hafi viljað vekja ótta meðal minnihluta borgarbúa á hátt sem ekki væri hægt að bera saman við aðra en Ku Klux Klan. Sem borgarstjóri hafnar hann ögrunum af þessu tagi. Borgin taki öllum opnum örmum og þröngsýni sé ekki velkomin.

Borgarráð Charlottesville, sem er í Virginíuríki, samþykkti söluna á styttunni í apríl. Dómari úrskurðaði að bíða yrði með söluna í hálft ár í þessum mánuði. Charlottesville er ekki eina borgin sem áformar að láta ummerki um stríðshetjur Suðurríkjanna hverfa. Starfsmenn borgaryfirvalda í New Orleans tóku styttu af Jefferson Davis af stalli sínum, en hún er ein fjögurra stytta sem yfirvöld þar á bæ hyggjast láta hverfa. Það var gert í skjóli nætur til þess að forðast áreiti, og starfsmennirnir huldu andlit sín. Samtök sem kalla sig Synir hermanna Suðurríkjanna lýstu því yfir að brottnám styttunnar væri hörmulegt og liður í því að láta sögulega og menningarlega þætti hverfa. Líktu samtökin aðförunum við aðfarir hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV