Mótmælagöngum frestað í Venesúela

03.08.2017 - 16:08
epa06119291 A group of opposition sympathizers protest against the Venezuelan government and the installation of the National Constituent Assembly in Caracas, Venezuela, 31 July 2017. The opposition continues to protest the agenda of President Nicolas
Fjöldi fólks kom saman í Caracas á sunnudag og mótmælti kosningunum til stjórnlagaþings.  Mynd: EPA  -  EFE
Stjórnarandstaðan í Venesúela hefur frestað til morguns mótmælagöngum sem skipulagðar höfðu verið í dag frá nokkrum stöðum í höfuðborginni Caracas að þinghúsi landsins. Ákvörðun var tekin um þetta eftir að Nicolas Maduro forseti tilkynnti að nýkjörið stjórnlagaþing landsins kæmi ekki saman í dag eins og fyrirhugað var, heldur á morgun.

Mótmælaaðgerðirnar áttu að hefjast á hádegi að staðartíma, klukkan fjögur að íslenskum tíma. Aðgerðaráð stjórnarandstæðinga, Hringborð lýðræðislegrar samstöðu, tilkynnti á Twitter með skömmum fyrirvara að göngunum hefði verið frestað um sólarhring.

Aðgerðirnar beinast fyrst og fremst gegn stjórnlagaþinginu, sem kjörið var á sunnudag. Á því sitja 545 fulltrúar, allir úr Sósíalistaflokki Venesúela og stuðningsflokkum hans. Þeirra á meðal eru eiginkona Maduros forseta, sonur hans og nokkrir nánir samstarfsmenn í stjórnkerfinu.

Þingið fær víðtækar heimildir til að endurskipuleggja og jafnvel leysa upp ríkisstofnanir jafnframt því að semja landinu nýja stjórnarskrá. Stjórnarandstaðan segir að tilurð stjórnlagaþingsins gangi í berhögg við stjórnarskrá landsins. Þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem eru í meirihluta á þjóðþinginu, segjast ekki ætla að viðurkenna neitt sem hið nýja þing lætur frá sér fara.

Luisa Ortega, ríkissaksóknari í Venesúela, hefur fyrirskipað rannsókn á atkvæðagreiðslunni á sunnudag. Talið er að kjörsókn hafi verið mun minni en kjörstjórn landsins og stjórnvöld hafa greint frá. Einn kjörstjórnarmaður hefur lýst því yfir að sitthvað hafi verið athugavert við atkvæðagreiðsluna.