Mögulega þrjú bátskuml á Dysnesi

15.06.2017 - 15:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fornleifauppgröftur á Dysnesi við Eyjafjörð hefur borið mikinn árangur en nú í morgun kom í ljós fjórða kumlið þar. Ekki er hægt að staðfesta hvort að það sem fannst í morgun sé bátskuml, en naglar hafa fundist í jarðveginum. Nú þegar hafa tvö bátskuml fundist í kumlareitnum. Menntamálaráðherra segir að unnið sé í kappi við tímann við að bjarga fornleifum á Íslandi undan ágangi sjávar.

Aldrei áður hafa fornleifafræðingar fundið þrjú bátskuml í sama kumlateigi á Íslandi en sú gæti verið raunin á Dysnesi. Hildur Gestsdóttir, fornleifa- og beinafræðingur segir að hvar sem skóflu sé stungið niður á svæðinu, þar finnist eitthvað.

„Það eru sem sagt komnir held ég tveir, þrír naglar, en ekki hægt að staðfesta að þetta sé bátur. Svona naglar geta komið úr kistli eða einhverju öðru sem hefur verið lagt í kumlið,“ segir Hildur. Aðeins eru um 10 bátskuml þekkt á Íslandi, en helmingur þeirra fannst í Eyjafirði.

Bátskuml nærri horfið í sjó

Þetta nýfundna kuml hefur orðið fyrir barðinu á sjávarrofi eins og hin bátskumlin tvö en Hildur segir litlu hafa mátt muna að annað þeirra hafi horfið algjörlega í sjó. 

„Miðað við hvað það er lítið eftir af þessu fyrsta bátskumli sem við fundum þá hefði bara þurft eitt stórveður til þess að taka restina. Það er ekkert víst að þetta hefði verið þarna eftir það," segir Hildur en sjávarrof mynja við strandlengju Íslands er þekkt vandamál.

„Í kappi við tímann“

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningamálaráðherra fór á Dysnes í morgun og skoðaði kumlin. „Það er alveg ljóst að hvort heldur sem það er við sjó eða uppi á landi að við erum, ekki bara hér á Íslandi heldur allstaðar í veröldinni, að keppa við tímann," segir Kristján.

Fornminjar á strandlengju Íslands er ekki skrásettar og því í raun ekki vitað hvar minjar rofa nú í sjó. Með skrásetningu væri hægt að forða minjum undan ágangi sjávar, eins og gerst hefur á Dysnesi. Kristján segir þetta verkefni, eins og önnur, aðkallandi. „Það þarf bara að forgangsraða í þessum efnum eins og öðrum,“ segir Kristján.