Ljóðskáldið Eva Rún Snorradóttir nýtir sér form örleikritsins í bókinni Fræ sem frjóvga myrkrið. Fyndin en nöturleg ljóð, segja gagnrýnendur Kiljunnar.

Fræ sem frjóvga myrkrið er þriðja ljóðabók Evu Rúnar Snorradóttur. Áður hefur hún gefið út Tappa á himninum og Heimsendir fylgir þér alla ævi.

Sunna Dís Másdóttir gagnrýnandi, sem hefur verið hrifin af fyrri bókum hennar, segir að hér fikri hún sig áfram með prósaljóðaformið. „Fyrri ljóðabálkurinn [í Fræ sem frjóvga myrkrið] er frábær. Þar koma saman konur sem rifja upp gamla sukkferð til Kanarí og mér fannst það virkilega skemmtilegt og vel gert. Í seinni hlutanum eru svo stök ljóð, sum í prósaformi en önnur hefðbundnari.“

Þorgeir Tryggvason var mjög hrifinn af fyrri hluta bókarinnar. „Þar nýtir hún sér form örleikritsins með lýsingum á persónum og öllu stillt upp sem díalóg. Það er algerlega magnað.“

Allt saman er þetta frekar nöturlegt, segja Þorgeir og Sunna Dís. Eva Rún skrifi um ofbeldi og nauðgun en kímnin sé samt aldrei langt undan. „Hún gerir þetta svo skemmtilega,“ bætir Sunna Dis við.