Eignaskipting á Íslandi er mjög ójöfn í alþjóðlegum samanburði. Þetta segir Guðmundur Ævar Oddsson, félagsfræðingur og dósent við Háskólann á Akureyri, sem hefur rannsakað stéttaskiptingu og ójöfnuð. Guðmundur var gestur á fundi Eflingar um helgina, þar sem umræðuefnið var stéttaskipting.

„Við vitum að tekjuójöfnuður jókst gríðarlega frá miðjum níunda áratugnum og fram að hruni. Og OECD tölur sýna að þetta á sér enga hliðstæðu, þannig að á þessu 12 ára tímabili var aukningin gríðarlega mikil. Þessi ójöfnuður hrapaði eftir hrun og við erum komin á kunnuglegar slóðir. Þannig að tekjuójöfnuður á Íslandi, ef við horfum bara á launatekjur og tökum fjármagnstekjur út fyrir sviga, er mjög lágur í alþjóðlegum samanburði.“

En það segir ekki alla söguna?

„Það segir ekki alla söguna því eignaskiptin á Íslandi er mjög ójöfn. Og mjög ójöfn í alþjóðlegum samanburði. Sérstaklega ef við horfum á hlutdeild ríkustu tíu prósentanna, þá er hún mjög ójöfn. Og ef við horfum á stöðuna í dag þá er eignaskiptingin mun ójafnari heldur en hún var 1997 og hún er enn ójafnari en hún var 2007. Og það er áhugavert að benda á að þótt tekjuójöfnuðurinn hafi hrapað eftir hrun, þá nær eignaójöfnuðurinn ekki hámarki fyrr en 2010 í umróti hrunsins þegar fólk var að missa eignir sínar og skuldastaðan að rjúka upp úr öllu valdi,“ sagði Guðmundur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Heyra má viðtalið við hann í heild sinni í spilaranum hér að ofan.