Stjórnarformaður Icelandair segir að aðgerðir í sölu- og markaðsmálum hafi verið vel úthugsaðar og góðar, en ekki verið fylgt nógu vel eftir. Hann er sannfærður um að þær eigi eftir að skila sér. Mistök hafi verið gerð í breytingum á leiðakerfinu. Hann segir að ekki hafi verið þrýst á forstjórann að segja upp.

Viðbrögð markaðarins létu ekki á sér standa eftir að Icelandair og Björgólfur Jóhannsson forstjóri félagsins sendu Kauphöllinni tilkynningar í gær, um að tekjur af fargjöldum verði 5-8% lægri en reiknað var með á árinu, sem þýðir lægri tekjur upp á 5,4 til 8,6 milljarða króna. Þegar markaðir voru opnaðir í morgun féll gengið um nærri fjórðung miðað við lokagengið í gær. . Lokagengið var 7 eftir viðskipti upp á 474 milljónir króna. Það er meira en 17% lækkun frá gærdeginum. Lægst fór gengið í 6,6. Sé litið lengra aftur í tímann, hefur gengið ekki farið undir 7 síðan seint sumarið 2012. Björgólfur tilkynnti uppsögn sína í gær. Hann segir í yfirlýsingu að ákvarðanir um breytingar á sölu- og markaðskerfi félagsins og innleiðing þeirra hafi ekki gengið nægilega vel. Auk þess hafi breytingar á leiðakerfi valdið misvægi í flugframboði.

„Aðgerðirnar sem slíkar eru vel úthugsaðar í þeim skilningi og góðar, en það sem kannski vantaði var að fylgja eftir útfærslunni sem hafði verið hugsuð varðandi þetta. Þannig að þegar var farið út í það að breyta sölu- og markaðskerfinu, það er að segja loka söluskrifstofum og annað, þá vantaði kannski örlítið meiri eftirfylgni og að sjá með hvaða hætti menn ætluðu að bregðast við að sinna markaðnum eins og hafði verið gert áður, þó það væri gert með öðrum hætti,“ segir Úlfar Steindórsson stjórnarformaður.

Meðal breytinga sem gerðar voru á leiðakerfinu var að fella burt næturflug til Evrópu og morgunflug til Bandaríkjanna.

„Þar urðu ákveðin mistök í uppsetningunni á leiðakerfinu í framhaldinu. Nú er ég að fara á fund þar sem er verð að kynna nýja útfærslu á leiðakerfinu eins og það verður 2019 og þar erum við að ná utan um þetta og komast betur í þann farveg sem við viljum hafa það.“

Björgólfur segir þessar ákvarðanir teknar á hans vakt og því axli hann ábyrgð. Úlfar segir að ekki hafi verið þrýst á Björgólf, en hvað með stöðu hans sjálfs?

„Ég er nú ekki undir neinum þrýstingi en auðvitað berum við öll ábyrgð og það verða allir, hver fyrir sig, að velta fyrir sér sinni stöðu og við í stjórninni gerum það líka eins og allir aðrir.“

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem Icelandair sendir frá sér verri afkomuspá til Kauphallarinnar, sem verður þess svo valdandi að gengi bréfa í félaginu hríðfellur. Síðast gerðist það í júlí. 

„Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að markaðurinn bregðist við, en á sama hátt þá trúum við því að þegar að við náum að koma þessu frá okkur eins og við viljum, að þá sjáum við viðsnúning þar,“ segir Úlfar Steindórsson stjórnarformaður Icelandair.