Ný heimildarmynd um meint kynferðislegt ofbeldi Michaels Jackson gegn ungum drengjum hefur vakið mikið umtal og neytt aðdáendur til að horfast í augu við arfleifð poppgoðsins.

Heimildarmyndin Leaving Neverland er byggð á viðtölum við tvo menn, Wade Robson og James Safechuck, þar sem þeir lýsa áralangri misnotkun Michaels Jackson sem að þeirra sögn hófst þegar þeir voru 7 og 10 ára gamlir. Myndin verður sýnd á RÚV í tveimur hlutum, fyrri hluti mánudaginn 11. mars og seinni hluti miðvikudaginn 13. mars.

Sjá einnig: Segir frá sýndarbrúðkaupi sínu og Jacksons

Safechuck vann fyrir sér sem fyrirsæta þegar hann var barn og kynntist Jackson þegar þeir léku saman í Pepsi-auglýsingu. Jackson bauð honum í hjólhýsi sitt eftir að tökum lauk og tókst með þeim vinátta. Wade Robson komst í bein kynni við Jackson þegar hann vann danskeppni í Ástralíu. Hann var eldheitur aðdáandi söngvarans, fékk tækifæri til að hitta hann eftir danskeppnina og var boðið af Jackson sjálfum að koma fram á tónleikum hans í Brisbane 1987. Robson gekk eftir það til liðs við danshóp sem ferðaðist til Bandaríkjanna með danssýningu. Móðir hans greip þar tækifærið, elti upp umboðsmann Jacksons og kom á öðrum fundi með stjörnunni.

Jackson ræktaði samband við fjölskyldur drengjanna. Í heimildarmyndinni er rætt við mæður þeirra, sem lýsa Jackson sem einmana, ljúfum og barnalegum manni. Drengirnir fóru í hljómleikaferðalög með Jackson og lifðu í vellystingum á heimilum hans í Los Angeles og á búgarðinum Neverland. „Þetta var yfirþyrmandi og líkt ævintýri sem ég týndi mér í,“ segir Stephanie, móðir Safechucks, í myndinni.

Robson og Safechuck lýsa í smáatriðum meintri misnotkun Jackson, sem hafi byrjað með þukli og sjálfsfróun en stigmagnast eftir því sem leið á sambandið. Í myndinni dregur Safechuck fram skjálfandi hendi lítið skartgripaskrín, sem hann segir að geymi verðlaunagripi sem Jackson hafi gefið honum í skiptum kynlífsathafnir.

Fréttir af meintri misnotkun Michaels Jackson hafa verið fluttar áratugum saman en heimildarmyndin Leaving Neverland hefur orðið til þess að endurmat á arfleifð þessa áhrifamikla tónlistarmanns fer nú fram. 

Fjölskylda Jacksons segir ekkert til í ásökunum Safechucks og Robsons og  þrautseigir aðdáendur hans verja hann við hvert tækifæri. Lögmenn dánarbús Michaels Jackson hafa einnig höfðað mál upp á 100 milljónir bandaríkjadala gegn HBO sem sýnir myndina.