Fjórir hafa greinst með mislinga, tvö ungbörn og tveir fullorðnir karlmenn, eftir að hafa flogið til Íslands um miðjan febrúar. Tuttugu börn, undir 18 mánaða aldri, á leikskóla í Garðabæ þurfa að vera í sóttkví á heimilum sínum í tvær og hálfa viku.
Mislingasmit kom upp um borð í flugvél um miðjan febrúar. Þegar hefur verið sagt frá því að tæplega 11 mánaða gamalt barn hafi greinst með mislinga í kjölfarið. Í dag var foreldrum á leikskóla í Garðabæ skýrt frá því að barn á leikskólanum, rétt undir 18 mánaða hafi einnig smitast í sömu vél.
Barnið er á batavegi en samkvæmt ítarlegum fyrirmælum frá sóttvarnalækni hafa leikskólastjórnendur brugðist við með þvi að láta alla foreldra vita. Þá munu rúmlega 20 börn undir18 mánaða þurfa að vera í eins konar sóttkví á heimili sínu í tvær og hálfa viku og í sem minnstu samneyti við þá sem eru óbólusettir.
Leikskólastjórnendur segja að foreldrar séu óttaslegnir en hafi tekið fregnum með ró. Næstu skref séu að fylgjast vel með börnunum og er foreldrum bent á símaþjónustu hjá sóttvarnalækni í síma 1700.
Mislingasmitið barst til Austurlands með farþegum í innanlandsflugi og hefur nú greinst á Reyðarfirði. Maðurinn sem smitaðist á Reyðarfirði fór ekki á heilsugæsluna heldur fór læknir í vitjun á heimili viðkomandi og hefur mislingasmit nú verið staðfest. Samkvæmt heimildum fréttastofu er ekki hægt að útiloka að maðurinn hafi smitað aðra og hefur Heilbrigðistofnun Austurlands því útbúið leiðbeiningar til fólks á svæðinu. Annars vegar óbólusettra og hins vegar þeirra sem finna fyrir einkennum.
„Þeir sem eru óbólusettir og hafa ekki fengið mislinga, þeim ráðleggjum við að fá sér bólusetningu og gera það með því að hringja í heilsugæsluna. Það er komið símanúmer í þessum efnum á heimsíðu HSA,“ segir Péturs Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá HSA.
En þeir sem finna fyrir einkennum, hver eru einkenni mislinga og hvað á fólk að gera? „Við höfum ákveðinn tímaramma í þessu miðað við útsetningu á smiti, til 22. mars, að þeir sem eru að fá einkenni eins og hita, köldueinkenni, roða/sviða í augu og/eða útbrot, að þeir ættu að hafa samband og þá að hringja [ í 470-3081] en ekki að fara á heilsugæslurnar heldur að hringja fyrst og þá fá þeir leiðbeiningar,“ segir Pétur.
Heilbrigðisstofnun Austurlands segir í tilkynningu að smitaðir hafi farið víða um á Fljótsdalshéraði og í Fjarðabyggð. Unnið sé að því að hafa samband við fólk sem reikna megi með að sé útsett fyrir smiti.