Minnkandi kolmunnaveiði í færeysku lögsögunni

15.05.2017 - 13:16
Mynd með færslu
Beitir NK landar kolmunna á Seyðisfirði  Mynd: Hákon Ernuson/svn.is
Talsvert er farið að draga úr kolmunnaveiði í færeysku lögsögunni, en veiðin hefur gengið vel til þessa. Skipstjórinn á Beiti NK segir íslenskum skipum á miðunum fara fækkandi.

Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu eru rúm 115 þúsund tonn af kolmunna komin á land á vertíðinni. Veiðin er samt nokkru meiri því þarna vantar afla hjá skipum sem eru á leið til hafnar og yfirstandandi landanir. Heildarkvóti íslensku skipanna er 243 þúsund tonn og skipin því rétt hálfnuð með kvótann.

Aðeins farið að draga úr veiðinni

Beitir frá Neskaupstað er með aflahæstu kolmunnaskipum á vertíðinni og þeir eru á heimleið með afla. „Kolmunnaveiðin hefur gengið vel það sem af er,“ segir Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti NK. „Þetta er samt aðeins farið að dragast upp núna á þessum tíma, þá fer þetta aðeins að minnka.“

Kolmunninn að ganga inn í skoska lögsögu

Íslensku skipin mega veiða kolmunna í Færeysku lögsögunni. Veiðin hefst syðst í lögsögunni og skipin fylgja göngunum þangað til kolmunninn gengur norður úr henni yfir í skoska lögsögu. Tómas segir jafnan draga úr veiðinni þegar kolmunninn gengur nær Færeyjum og dreifist um landgrunnið við eyjarnar.

Heimsiglingin tekur á annan sólarhring

Það er komið á annan mánuð síðan þeir á Beiti hófu kolmunnaveiðina. „Þetta eru orðin 12.500 tonn hjá okkur í fimm veiðiferðum,“ segir Tómas. 18 skip hafa landað kolmunna á vertíðinni og þeim fer nú ört fækkandi, enda dýrt að sækja aflann svo langa leið. Siglingin heim með afla tekur á annan sólarhring. „Ég reikna með því að við förum einhverja túra í viðbót,“ segir hann.

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV