Talsvert friðsamara hefur verið á hinum almenna vinnumarkaði en hinum opinbera í nokkuð langan tíma. VR, stærsta stéttarfélag landsins fór síðast í verkfall fyrir 30 árum. Miðað við atkvæðagreiðslur 2015 um verkfallsboðun virðist verkfallsviljinn talsvert minni meðal félagsmanna í VR en í Eflingu.
Saga launabaráttu opinberra launamanna og launamanna á almennum vinnumarkaði er nokkuð ólík. Verkfallsrétturinn var tekinn af opinberum starfsmönnum með lögum 1915. Réttur launþega á almenna vinnumarkaðinum var hins vegar lögfestur 1938. Laun opinberra starfsmanna voru ákvörðuð með lögum fram eftir síðustu öld. 1976 fengu ríkisstarfsmenn verkfallsrétt sem var bundinn við aðalkjarasamninga og opinberum stéttarfélögum var veittur verkfallsréttur 1986.
Talsverður munur á opinbera og hinum almenna
Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, hefur rannsakað verkfallssöguna frá 1977 til 2009. Á þeim tíma töpuðust tæplega tvær milljónir vinnudaga vegna verkfalla. Tæplega helmingur var vegna verkfalla á opinbera vinnumarkaðinum eða tæplega 48%. Fjöldi opinberra starfsmanna er hins vegar rúmlega fimmtungur vinnumarkaðsins.
Munur á opinbera markaðinum og hinum almenna kemur glöggt fram þegar litið er á tapaða daga á hverja 1000 starfsmenn. Á tímabilinu 1977 til 2009 voru þeir tæplega 44 þúsund meðal opinberra starfsmanna en tæplega 10 þúsund meðal launþega á almenna vinnumarkaðinum. Frá aldamótum hefur verið fremur friðsamt á almenna vinnumarkaðinum. Flugmenn og flugvirkjar hafa farið í verkfall og sömuleiðis sjómenn.
Þau félög sem eru nú í kjaraviðræðum, félög innan Alþýðusambandsins, hafa nánast ekki farið í verkfall síðustu ár. Þau hafa þó látið skína í verkfallsvopnið þótt ekki hafið komið til verkfalls.
Verkfallshótanir
Það á eftir að koma í ljós hvort til verkfalla komi vegna yfirstandandi kjaradeilna og vegna samninga sem losna fljótlega. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur ítrekað hótað verkfallsaðgerðum.
„Eina sem ég get sagt er það að ef að stjórnvöld fara ekki að taka þessa umræðu og kröfu grasrótarinnar alvarlega að þá verða átök hérna upp úr áramótum,“sagði Ragnar Þór í þættinum Straumhvörf verkalýðshreyfingarinnar 1. maí á Rás 1 í fyrra.
Minni verkfallsvilji í VR en Eflingu?
En er vilji til að efna til verkfalla? Gylfi Dalmann hefur aðeins skoðað það sem hann kallar verkfallsvilja á árunum 2014 og -15 út frá þátttöku í atkvæðagreiðslum um verkfallsheimildir og hlutfalli félagsmanna sem voru samþykkir verkfalli. Meginniðurstaðan er að mikil þátttaka er í atkvæðagreiðslum innan einsleitra félaga, t.d. í heilbrigðisgeiranum og hjá flugmönnum og kennurum. Einnig er mjög hátt hlutfall samþykkt verkfallsboðun í slíkum félögum. VR sker sig úr hvað þetta varðar, í atkvæðagreiðslu 2015 um verkfallsheimild félagsins. Bakgrunnur félagsmanna er nokkuð fjölbreyttur. Þátttakan var aðeins 25% í atkvæðagreiðslunni.
„ Á meðan við erum að sjá 80 til 90% þátttöku í öðrum félögum. Þeir sem voru tilbúnir að fara í verkfall af þeim sem sem tóku þátt voru 58%. Þannig að það voru um 39% sem voru á móti. Umboðið var því ekkert sérstaklega sterkt. Efling óskaði líka eftir verkfallsheimild. Þar var þátttakan aðeins meiri, um 30%, en 94% sögðu já sem að segir manni það að þar er miklu sterkari verkfallsvilji. Þetta eru ólík félög og þess vegna er það merkilegt út frá vinnumarkaðsfræðunum og hvernig skipulagið hefur verið að þróast á íslenskum vinnumarkaði að þessi félög eru svona nátengd í dag þegar kemur að kjarsamningagerðinni,“ segir Gylfi Dalmann.