Framlög ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skerðast um þrjá milljarða á næstu tveimur árum, gangi áform stjórnvalda eftir. Samband íslenskra sveitarfélaga segir þetta árás og alvarlegan trúnaðarbrest. Verði af þessum áformum þurfi að skerða þjónustu.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er meðal annars notaður til þess að fjármagna hluta af þjónustu við fatlað fólk og til að styðja sveitarfélög í fjárhagskröggum. Um helmingur sjóðsins er fjármagnaður með framlögum frá ríkinu, sem hafa farið hækkandi í takt við auknar tekjur ríkissjóðs. En nú verður breyting þar á.

„Fulltrúar ráðuneytisins hittu okkur á fundi í vikunni og tilkynntu okkur um þá ákvörðun að frysta framlög ríkisins inn í Jöfnunarsjóð á næstu tveimur árum,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Hvað er það há upphæð?

„Fulltrúar Jöfnunarsjóðs og okkar starfsmenn reikna það til að vera ríflega þrjá milljarða á þessum tveimur árum,“ segir Aldís, en sú upphæð nemur hátt í tíu prósentum af heildarframlögum ríkisins til sjóðsins.

Hvaða skýringu fenguð þið á þessu frá ríkisvaldinu?

„Skýringin var bara sú að það væri vöntun á fjármunum hjá ríkinu og að ríkisstjórnin þyrfti að efna markmið um tekjuafgang.“

Lýsti mikilli óánægju

Í bókun sem samþykkt var á stjórnarfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag segir meðal annars að sambandið mótmæli þessum áformum harðlega, ekkert samráð hafi verið haft og að ákvörðunin sé einhliða. Með þessu hafi ráðherra og ríkisstjórn brugðist trausti sambandsins á mjög alvarlegan hátt. 

Þá segir að aðgerðin muni auka á skuldasöfnun margra sveitarfélaga. Hún sé árás á sjálfsákvörðunarrétt og fjárhagslegt sjálfstæði þeirra, sem eigi sér ekki fordæmi í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Loks er því hótað að ef áformin verði ekki dregin til baka muni fulltrúar sveitarfélaga hætta þátttöku í samstarfsverkefnum ríkis og sveitarfélaga og draga sig út úr vinnu við gerð samkomulags um opinber fjármál. 

Aldís segir að mörg sveitarfélög standi höllum fæti fjárhagslega, auk þess sem yfirvofandi launahækkanir geti reynst þeim þungbærar. Ef af þessu verði, sé ljóst að skerða verði þjónustu.

„Sveitarfélög veita mjög fjölbreytta þjónustu. Við erum þessi aðili sem veitir nærsamfélagsþjónustu, málefni fatlaðs fólks eru eitt af því, en sveitarfélög eru að veita mjög fjölbreytta þjónustu sem er ekki lögbundin. Þannig að það er ekki ólíklegt að það verði horft til þess, ef á þarf að halda sem við vonum að verði ekki.“

Aldís segist hafa rætt bæði við Bjarna Benediktssson, fjármálaráðherra og Sigurð Inga Jóhannsson, ráðherra sveitarstjórnarmála.

„Ég er búin að heyra í þeim báðum já og lýsa yfir mikilli óánægju fyrir hönd sveitarstjórnarmanna með þessa ákvörðun,“ segir hún.

Ekki fengust upplýsingar um málið frá fjármálaráðuneytinu þegar eftir því var leitað seinni partinn í dag.