Fjórða plata Jónasar Sig heitir Milda hjartað og sker hún sig frá fyrri verkum hans um margt. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Vegferð Jónasar Sig um íslenskar popplendur hefur verið allt í senn, sérstæð, mögnuð og – ég verð að segja það – gefandi. Fyrir okkur en kannski ekki síst hann sjálfan. Jónas hafði verið á hlaupum undan andagiftinni, sinni guðsgjöf, í árafjöld en gafst að lokum upp fyrir henni. Gekkst í sátt við það sem hann er og það sem hann verður að gera. Segja má að karma heimsins hafi hækkað um eitt búlduleitt stig við þá ákvörðun.

Malbik

Árið 2006 gaf hann út plötuna Þar sem malbikið svífur mun ég dansa, flippaður titill og innihaldið sömleiðis. En um leið ekki. Jónasi tókst með plötunni, og á ferli sínum öllum, að samþætta ólíka hópa, pælara sem salt jarðar, ekki ósvipað og Mugison gerði nokkrum árum fyrr. Tónlist Jónasar er djúphugul og aðgengileg á sama tíma, býr yfir flóknum vangaveltum um lífið, tilveruna og tilgang þessa alls en talar um leið til okkar allra, eitthvað sem útskýrir þessar miklu vinsældir hans. Þess fyrir utan kann drengurinn að koma fyrir sig orði, er með sterka nærveru og aðlaðandi fas, einn af þessum mönnum sem fyllir út í herbergið. Þú tekur eftir honum. Hann hefur enda unnið áfram með pælingar sínar á öðrum sviðum en tónlistinni, hefur haldið fyrirlestra og í tengslum við þessa plötu kemur út kver með lengri pælingum í kringum hvert og eitt lag.

Milda hjartað stígur frá fyrri plötum Jónasar á nokkuð afgerandi hátt. Þetta er falleg plata, vær og einlæg. Siglir rólega áfram og þetta er ekki fljóttekið verk. Skyndibiti er þetta ekki, nei, þetta er hægeldað. Á fyrri plötum var hann að leita; æstur, pælandi, stundum reiður, stundum í hreinu grallaragríni. Hér er hins vegar eins og hann hafi fundið eitthvað. Og hann veltir því um á milli fingra sér og hugsar – í stóískri ró, í jafnvægi. Í raun er bara eitt lag sem ýtir í skankana á manni, og ber það hinn lýsandi titil „Dansiði“. Önnur lög eru til muna höfugri og hæfa betur sófasetu en brjálsemi á dansgólfi. Það eru lög þarna („Ég veit um stað“) sem minna á sígilda íslenska dægurtónlist. Villi Vill, Mannakorn. Önnur („Leitaði einskis og fann“) draga fram anda Neil Young eða Van Morrison. Mér verður hugsað um þessar andlegu plötur Van Morrissons; eins og Veedon Fleece, Common One eða No Guru, No Method, No Teacher. Plötur sem bjuggu yfir áreynslulausu flæði og hljómuðu eins og þær hefðu verið baðaðar upp úr tærri morgundögg. Jónas fetar ekki ósvipaða stigu, sjá t.d. „Milda hjartað“, titillagið.

Ég held ég hafi aldrei heyrt Jónas svona einlægan og ástríðufullan í söngnum, maður nánast spennist upp þegar hann hefur upp raustina. Maður heyrir að honum er ekki sama. „Þrái bara það / að milda hjartað“. Mikið er þetta falleg játning og yfir henni bæði reisn og auðmýkt. „Leitaði einskis og fann“ er stóreflis ballaða, líður áfram um leið og hún ristir djúpt. Textinn/ljóðið er eftir Hrafnkel Lárusson og mantran sem þar er endurtekin er nokkurs konar lykill að inntaki plötunnar: „Leitaði einskis og fann“. Allt sem þú þarft er hér og nú, innra með þér. Ég nefni líka „Elska bara“, nokk furðuleg smíð miðað við annað hér. Laginu vindur áfram í nokkurs konar naumhyggju-lykkju, það er dálítið þungt yfir en svo koma „Elskandi raddir“, kór sem samanstendur m.a. af börnum og konum Jónasar og Ómars Guðjónssonar, tvíeykinu sem ber hitann og þungann af plötunni. Kórinn kemur með svarið við þungbúnum hugsunum Jónasar: „Hvernig væri að prófa að elska bara?“ Og kveður þá góðu vísu sí og æ. Snilld. Hið kvenlæga trompar hið karllæga í þessu tilfelli, en Jónas veltir m.a. fyrir sér þessum tveimur þáttum manneskjulegheita, sem búa báðir innra með okkur öllum, í mismiklu magni þó.

Svipur

Margir samstarfsmenn komu að plötunni en ég nefni bara einn sérstaklega, áðurnefndan höfuðsnilling Ómar Guðjónsson sem stjórnaði verkefninu auk þess að sjá um upptökur og margt, margt fleira. Umslagshönnun plötunnar er glæst. Svipur Jónasar segir svo mikið um innihaldið. Alvarlegur...en um leið mildur. Eins og hjartað. Sem fannst.

Með því að smella á myndina efst í færslunni má heyra samtal þeirra Þorsteins Hreggviðssonar í Popplandi, Andreu Jónsdóttur og Arnars Eggerts um Plötu vikunnar.

Mynd af Jónasi Sig: Bernhard Kristinn