Miklir skógareldar í Suður-Evrópu

26.07.2017 - 05:35
epa06107120 Flames and smoke during a forest fire at Proenca-a-Nova, Castelo Branco district, central Portugal, 24 July 2017. According to reports, 807 firemen, 248 vehicles and 12 airplanes and helicopters were engaged in fighting the forest fire.  EPA
 Mynd: EPA  -  LUSA
Enn brenna miklir skógareldar í Suður-Frakklandi. Eldar loga einnig víða á Ítalíu og í Portúgal. Í Frakklandi er ástandið einna verst á Korsíku, þar sem 1.800 hektarar skóglendis hafa orðið eldi að bráð í sumar. Yfir 2.000 slökkviliðsmenn berjast við eldana á Korsíku og í Provence-héraði, 19 flugvélar og þyrlur eru notaðar við slökkvistarfið og frönsk yfirvöld hafa farið fram á að Evrópusambandið sendi minnst tvær slökkviliðsflugvélar til aðstoðar.

Á Korsíku hefur fjöldi fólks þurft að yfirgefa heimili sín vegna eldanna, stór sögunarmylla brann þar til ösku og tugir bifreiða einnig. Í Luberon-þjóðgarðinum, norður af Marseille, hafa á annað þúsund hektarar skóglendis brunnið og margir minni eldar brenna meðfram frönsku Rívíerunni. Við bæinn Carros, norður af Nice, eyðilögðust hvort tveggja byggingar og bílar í eldinum, sem þar hefur sviðið um 200 hektara af skógi.

Minnst tíu slökkviliðsmenn hafa slasast og þrír slökkvibílar eyðilagst í Frakklandi á síðustu sólarhringum. Miklir hitar, þurrkur og nokkuð stíf hafgola víða gerir allt slökkvistarf enn erfiðara en ella.

Í Portúgal kljást um 2.300 slökkviliðsmenn við fjölda skógar- og gróðurelda sem blossað hafa upp að nýju, eftir nokkra, eldlausa daga. Þar gerir vindur slökkvliðsmönnum einnig lífið leitt. Þá er ekkert lát á gróður- og skógareldum á Ítalíu, þar sem miklir þurrkar og hitar hafa geisað í sumar. Þúsundir slökkviliðsmanna eru þar að störfum, allt frá Sikiley í suðri, langt norðureftir Toskana.

Veðurspár gefa lítið tilefni til að ætla að ástandið skáni að ráði í suðurhluta álfunnar á næstunni.