Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins segir að hann eigi ekki von á neinum sérstökum afleiðingum vegna ummæla sem hann lét falla um formann flokksins, Ingu Sæland á hljóðupptöku sem fjölmiðlar hafa birt. „Það eru miklir lærdómar sem hægt er að draga af þessu. Oft fara á milli aðila hlutir sem þurfa að fara leynt. En það er haft eftir mér að hún vilji vel ég held að það séu jákvæð ummæli. Í okkar flokki er góður andi og gott samstarf,“ segir Ólafur.

Fjölmiðlar hafa birt ummæli Ólafs og flokksbróður hans, Karls Gauta ásamt Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanni Miðflokksins sem náðust á upptöku á bar í Reykjavík í síðustu viku.

„Getur ekki hver og einn séð sjálfan sig í þessum sporum?  Ég verð að segja að ég er mjög hugsi yfir því að það sé verið að taka upp það sem að fram fer og að fjölmiðlar skuli telja sér heimilt að nota svona efni. Þetta hlýtur að þurfa að ræðast á vettvangi blaðamannafélagsins. Menn hljóta að skoða þessa hlið á málinu líka,“ segir Ólafur í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sgir að stjórn flokksins komi saman í dag og ræði ummælin. Hún segist aldrei hafa orðið var við vantraust í sinn garð frá Ólafi og flokksbróður þeirra, Karli Gauta Hjaltasyni. Inga segist ekki vilja koma með ákúrur á sína samstarfsmenn „eða aðra sem brosa til manns á göngunum um leið og þeir greinilega skutla hnífum í mann þegar maður gengur fram hjá þeim,“ segir Inga.

Fréttin hefur verið uppfærð og viðtali bætt við.