Miklir hagsmunir undir, líka fyrir Ísland

29.03.2017 - 07:37
Utanríkisráðherra segir Íslendinga vilja greiðari aðgang að breskum mörkuðum en nú er eftir að Bretar yfirgefa Evrópusambandið. Mikil óvissa ríkir um hvert Bretland stefnir eftir Brexit en hagsmunir Íslendinga eru miklir.

Um það bil fimmtíu og tvö prósent Breta greiddu atkvæði með því, í júní í fyrra, að Bretland yfirgefi Evrópusambandið. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, mun í dag tilkynna sambandinu formlega að Bretland hyggist yfirgefa sambandið. Þá taka við samningaviðræður en Bretland og ESB hafa tvö ár til að semja um viðskilnaðinn og það hvernig málum verður háttað þegar Bretland er ekki lengur á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem fólk, fjármunir, vörur og þjónusta flæða frjálst á milli landa.

Hefur kortlagt hagsmuni Íslands

Þar eru miklir hagsmunir undir, ekki bara fyrir Breta eða ríki Evrópusambandsins heldur líka fyrir EFTA ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu - til að mynda Ísland.

„Þetta er forgangsmál hjá okkur, við höfum kortlagt stöðuna, það er að segja hagsmuni Íslands og hvað við viljum fá út úr samningaviðræðum við Breta,“ segir Guðlaugur Þór Þórðason, utanríkisráðherra.

Bretlandsmarkaður skiptir miklu máli fyrir íslensk fyrirtæki. 11,6 prósent útflutningstekna koma þaðan. Árið 2015 voru fluttar út íslenskar vörur þangað fyrir 73 milljarða og það er lang stærsti markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafurðir. Þá var flutt út þjónusta fyrir 61 milljarð, þar munar mest um ferðaþjónustu enda eru Bretar næst fjölmennasti hópur ferðamanna hér. Í fyrra voru Bretar 18 prósent þeirra sem komu í gegnum Leifsstöð. Fyrstu tvo mánuði þessa árs voru þeir 30 prósent. 

„Markmiðið varðandi vörur og þjónustu í viðskiptum við Breta er að ná betri aðgangi en við höfum núna. Þó að EES samningurinn sé mjög góður og mjög mikilvægur fyrir okkur þá veitir hann okkur ekki fullan aðgang að breska markaðnum þannig að það eru sóknarfæri hvað það varðar,“ segir Guðlaugur Þór.

Hagsmunir sjávarútvegs flokkaðir í fernt

Flestar íslenskar vörur er fluttar til Bretlands án þess að lagður sé á þær tollur. Þó eru undantekningar eins og lax, makríll, síld, humar, hörpudiskur og rækjur. Á þær afurðir leggst tólf prósenta tollur. Ef ekki nást samningar um frjáls viðskipti eftir Brexit gætu Bretar lagt háa tolla á innfluttar vörur frá Íslandi - fimm til fimmtán prósent. Þessa hagsmuni er verið að kortleggja. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi flokka hagsmunina í fernt.

„Í fyrsta lagi útflutningur, eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, að það verði óheft innflutning okkar til Bretlands. Tollamál - að það verði ekki auknir tollar, að það verði ekki veruleg breyting þar á. Síðan fiskveiðistjórnunarkerfi, hvaða kerfi munu bretar koma sér upp og hvaða áhrif það mun hafa á framboð fisks á markaði í Bretlandi. Það getur haft töluverð áhrif. Síðan þurfum við að meta hvað munu samkeppnisaðilar okkar gera, hvers konar samningum ná þeir við Breta og verða þeir betri eða lakari en mögulegir samningar Íslands,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.

Jafnvel þó ekki verði samið um betri aðgang að Bretlandsmarkaði fyrir íslenskar sjávarafurði er mjög mikilvægt að vel takist til í samningum við Breta.

„Í fyrra vorum við að flytja út fyrir 41 milljarð króna. Næsti markaður er Frakkland sem er um helmingi minni. Við erum stærsti innflytjandi fisks í Bretlandi. Við erum ótrúlega stór á þessum markaði. Við vorum með 265 milljónir tonna 2015, næst á eftir var Kína með 180 milljón tonn. Þannig að þetta hefur auðvitað veruleg áhrif á íslenskan sjávarútveg hvernig til tekst,“ segir Heiðrún Lind.

Hvað vilja Bretar í staðinn?

Það verður að hafa í huga að í viðræðum munu Bretar líka leggja fram kröfur.

„Þeir gætu farið fram á það að, sem dæmi, að ef við fengjum að flytja fisk til þeirra að þeir fengju að flytja inn landbúnaðarvörur til okkar. Bara sem dæmi. Þetta gæti verið eitthvað sem þarf að semja um,“ segir Ásgeir Jónsson, hagfræðingur.

Gengi pundsins hefur veikst eftir atkvæðagreiðsluna um Brexit og Ásgeir spáir auknum viðskiptum við Breta í framhaldi af því. Hann sér þó engin tækifæri fyrir utanríkisviðskipti í Brexit eins og stundum er nefnt.

„Þetta skapar eiginlega frekar flækjur og vandræði. Í framhaldi verðum við að semja við Breta í tvíhliða viðræðum. Ég held að markmiðið verði að vera að reyna að ná jafngóðum samningum og við höfum náð nú þegar,“ segir Ásgeir.