Miklar breytingar verða á gróðurfari og búsvæðum dýra vegna aukinnar útbreiðslu lúpínu og annars gróðurs á næstu áratugum. Þetta segir Borgþór Magnússon plöntuvistfræðingur sem kynnir niðurstöður rannsóknar á áhrifum lúpínu á gróður og jarðveg á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunar Háskóla Íslands í dag.

Borgþór var gestur Samfélagsins á Rás 1 í dag. Hann segir að gróðurframvinda í lúpínubeiðum sé mjög mismunandi frá einu svæði til annars. Hægt er að lesa niðurstöður rannsóknarinnar á vef Náttúrufræðistofnunar.

„Það er ekki hægt að segja að það sem þú sérð í Heiðmörk gildi á Norðausturlandi,“ segir Borgþór. „Aðstæðurnar á hverju svæði, bæði úrkoma, veðurfar og jarðvegsgerð, skiptir miklu máli. Hér sunnanlands er mun úrkomusamara og hlýrra en fyrir norðan.“

Sunnanlands hefur framvindan verið mjög lík frá einu svæði til annars, en norðanlands eru aðstæður öðruvísi og lúpínubreiðurnar eru gisnari.

„Framvindan hér sunnanlands er mjög lík frá einu svæði til annars. Svona með tíð og tíma, þar sem lúpína breiðist yfir mela og sanda, þá fara að vaxa grös með henni,“ segir Borgþór. „Það tekur að myndast mosalag í sverði sem þykknar með árunum. Blómjurtir eins og fíflar og hvannir fara að koma inn í breiðurnar. Hér sunnanlands sáum við merki um það að eftir svona 30 ár fer lúpínan að gisna og hefur jafnvel horfið algörlega.“

„Við setjum fram þá tilgátu að þetta mikla mosa og graslag, það þykka lag sem myndast undir henni, að það torveldi ungplöntunum þegar hún sáir sér, að hún nái ekki að vaxa upp og viðhalda stofninum. Þannig að gömlu plönturnar eldast og ganga úr sér og það er ekkert sem tekur við.“

Þar sem úrkoma er miklu minni verður lúpínan ekki eins einráð og það er fjölbreyttari gróður sem vex með henni, segir Borgþór.