Búast má við mikilli kostnaðaraukningu í rekstri heilbrigðiskerfisins á næstu fimm árum að sögn Ágústs Einarssonar, einkum vegna fjölgunar í hópi eldri borgara. Íslenska heilbrigðiskerfið er að mörgu leyti gott en betur má ef duga skal, sagði Ágúst á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Ágúst Einarsson, prófessor emiritus við Háskólann á Bifröst, gaf nýlega út bókina Íslensk heilbrigðismál í alþjóðlegu samhengi þar sem fjallað er um íslenska heilbrigðiskerfið í samanburði við erlend.

Hann segir miklar breytingar að eiga sér stað á íslensku heilbrigðiskerfi. Íslendingum sé hætt að fjölga og fólksfjölgun hér á landi sé tilkomin vegna aðfluttra íbúa. Öldruðum fjölgi mikið á næstu árum en þeir eru nú um 15 prósent landsmanna.

Aukinn kostnaður vegna aldraðra

Ágúst segir viðbúið að aldraðir verði þriðjungur íbúa innan nokkurra áratuga og að heilbrigðiskostnaður vegna þeirra aukist að sama skapi. Kostnaður við heilbrigðisþjónustu fólks sem er 65 ára eða eldra er fjórum til fimm sinnum meiri en við heilbrigðisþjónustu þeirra sem yngri eru. Kostnaður við heilbrigðisþjónustu aldurshópsins 85 ára eða eldri er níu sinnum meiri en yngri aldurshópa. „Þetta kallar á enn vandaðra kerfi,“ segir Ágúst.

„Við erum að horfast í augu við algjörlega nýja stöðu,“ segir Ágúst og „allt önnur kostnaðarhlutföll og aukinn kostnað. Við erum satt að segja ekki tilbúin að takast á við þessar miklu breytingar,“ segir hann.

Að sögn Ágústs stenst íslenskt heilbrigðiskerfi ágætlega samanburð við þau annars staðar á Norðurlöndum. „Íslenskir heilbrigðisstarfsmenn, læknar og hjúkrunarfræðingar og allir aðrir, þeir eru mjög vel menntaðir og þetta er mjög fært starfsfólk.“

Þó sé ýmislegt sem betur megi fara í heilbrigðiskerfinu. „Við erum að ná árangri á sumum sviðum, á öðrum sviðum er staðan lakari.“ Minna fjármagni sé veitt til heilbrigðismála hér á landi en í nágrannalöndum, til að standa jöfnum fæti með öðrum norrænum löndum þurfi að auka framlög til málaflokksins um 30 milljarða á ári. Sums staðar sé horft til þess að 11 prósent vergrar landsframleiðslu eigi að fara í heilbrigðiskerfið en þá þyrfti íslenska ríkið að auka framlög um 60 milljarða en það er um það bil sama fjárhæð og Landspítalinn fær á ári. „Þetta eru svo stórar tölur sem eru í kringum þetta,“ segir Ágúst og fjárfestingar í málaflokknum séu minni hér en á Norðurlöndum.

Reykingar og áfengisneysla kosta sitt

Þrátt fyrir að mikið starf hafi verið unnið í að draga úr reykingum Íslendinga er árlegur kostnaður vegna heilbrigðisvandamála sem þeim tengist 25 milljarðar á ári. Áfengisneysla landsmanna hefur aukist undanfarin ár í samanburði við önnur lönd og segir Ágúst þá neyslu kosta heilbrigðiskerfið um 80 milljarða á ári, 20 milljörðum meira en varið er til Landspítalans.

„Kostnaður í sambandi við heilbrigðismál er mjög mikill og hann er miklu meiri en fólk almennt gerir sér grein fyrir,“ segir Ágúst. Leggja þurfi meira fjármagn í heimahjúkrun og heimaaðstoð þar sem Ísland sé eftirbátur annarra norrænna landa. „Stærsta hjúkrunarheimilið erum við að reka inni á Landspítalanum sem er nú bara fjarstæða að gera slíkt.“