Eitt af mikilvægustu verkefnum komandi ára er að vinna gegn eyðandi lítilsvirðingu gagnvart þeim sem eru skilgreindir öðruvísi og annars konar, sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í áramótaávarpi sínu. „Við eigum að taka undir einarða baráttu fólks sem hefur mátt þola margs konar lítilsvirðingu og neitar að þola hana lengur.“
Þá gerði hún kjaraviðræður að umtalsefni og sagði að stór verkefni væru fram undan; að draga úr kostnaði sjúklinga, byggja upp nýtt félagslegt húsnæðiskerfi, lengja fæðingarorlof og endurskoða skatt- og bótakerfi til að tryggja tekjulægri hópum bætt lífskjör. Stjórnvöld muni leggja sitt af mörkum til að greiða fyrir kjarasamningum. „Nauðsynlegt er að ráðast í stórátak í húsnæðismálum til að tryggja nægjanlegt framboð af góðu húsnæði á viðunandi verði. Þá eru allir aðilar sammála um að breyta þurfi tekjuskattskerfinu til að koma sérstaklega til móts við lægri og millitekjuhópa.“
Katrín talaði einnig um áherslumál Íslands í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna en þar á Ísland sæti til loka árs 2019. Þar verði lögð áhersla á jafnrétti kynjanna, réttindi hinsegin fólks og réttindi barna. „Þegar kemur að jafnrétti kynjanna fagnar Ísland góðum árangri á alþjóðavísu, árangri sem ekki síst náðist vegna baráttu kvennahreyfingarinnar þar sem konur ruddu brautina, oft við litlar vinsældir, en með ótrúlegum árangri.“ Þar megi ekki slaka á „enda jafnrétti kynjanna hvergi nærri náð eins og við vitum öll. Þá eru stór verkefni framundan við að bæta réttindi hinsegin fólks þar sem Ísland hefur alla burði til að skipa sér í fremstu röð,“ sagði forsætisráðherra í ávarpi sínu.
Hér má lesa alla ræðuna. Hægt er að horfa á ávarpið í spilaranum hér fyrir ofan.