Íslenska lopapeysan þykir þjóðleg og falla vel að landinu. Hún er ein táknmynda þess. Það er eins og þessi dálítið grófa peysa með hringlaga munsturbekknum hafi alltaf verið til. Komin er út bók með niðurstöðum rannsókna Ásdísar Jóelsdóttur, lektors, á uppruna, sögu og hönnun íslensku lopapeysunnar. Þar kemur fram að útlitið á lopapeysunni, eins og við þekkjum hana, hafi byrjað að mótast undir lok fjórða áratugar síðustu aldar og byrjun þess fimmta. Ásdís var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1.

Forsaga nútíma lopapeysunnar er þó lengri, eins og Ásdís rekur í bók sinni Íslenska lopapeysan - Uppruni, saga og hönnun. Prjónakunnátta var orðin almenn á Íslandi á 17.öld og prjónavörur mikilvæg útflutningsafurð. Undir lok 19.aldar eru settar á stofn ullarverksmiðjur, sauma- og prjónavélar eru fluttar til landsins, og vaxandi sjósókn krafðist skjólgóðra flíka. Sjómannspeysan er forveri íslensku lopapeysunnar. Heiðurinn af þróun, vexti og viðgangi, íslensku lopapeysunnar eiga íslenskar prjónakonur, sem fundið hafa upp og viðhaldið munsturtegundum. Ásdís Jóelsdóttir lýsti þessu á Morgunvaktinni á Rás 1. Hún ræddi sérstaklega mikilvægan þátt Auðar Sveinsdóttur, húsfreyjunnar á Gljúfrasteini, sem var ein þerra kvenna sem mótaði nútíma lopapeysuna. Ásdís segir mikilvægt að vernda einkenni íslensku lopapeysunnar, greina og kynna ólík munstur - og láta upprunamerki fylgja. 

Bók Ásdísar Jóelsdóttur, sem er lektor í textíl á menntavísindasviði Háskóla Íslands, er ritrýnd og mikilvægur grunnur frekari rannsókna á þessum handverksarfi okkar. Háskólaútgáfan gefur bókina út.