Viðburðurinn Milljarður rís þar sem fólk kemur saman og dansar gegn kynbundnu ofbeldi var haldinn í sjötta sinn í dag. Í ár er viðburðurinn tileinkaður konum af erlendum uppruna, sem stigu eftirminnilega fram í kjölfar Metoo byltingarinnar og sögðu frá reynslusögum sínum af kynbundnu ofbeldi hér á landi. Sex konur af erlendum uppruna, þar á meðal Eliza Reid forsetafrú, hófu viðburðinn með því að lesa frásagnir af ofbeldi sem komu fram undir formerkjum Metoo.

Eliza segir að reynsla kvenna af erlendum uppruna hér á landi sé einstök og að það hafi verið mikilvægt fyrir þær að finna stuðninginn sem viðburðurinn sýndi þeim í dag.

„Við erum ekki í sama tengslaneti og fólk sem er fætt hér. Fólk sem býr fyrir utan höfuðborgarsvæðið er einangraðra og kannski þekkir ekki allar leiðir til að leita eftir hjálp. Þetta er mjög mikilvægt að sýna þessum konum stuðning og þekkja að reynsla þeirra er öðruvísi. Ég er mjög glöð að UN Women er að leggja áherslu á sögur kvenna af erlendum uppruna í ár,“ segir Eliza Reid, forsetafrú.

Eliza telur lítið hafa breyst síðan Metoo hreyfingin fór af stað. „Ég vona samt að með metoo byltingunni séum við að segja hingað og ekki lengra. Það er ekki í lagi að gera svona og það er líka allt í lagi að tjá sig um það, finna stuðninginn í hvort öðru, og fyrir konur að sjá að lang stærsti hluti samfélagsins styður þær,“ segir Eliza.

Milljarður rís er haldinn af UN Women í samstarfi við Sónar tónlistarhátíðina. Viðburðurinn er haldinn víða um heim og tekur þannig afstöðu gegn kynbundu ofbeldi. Á Íslandi var dansað í Hörpu, Hofi Akureyri, Félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði, Íþróttahúsinu Neskaupsstað, Íþróttahúsinu Egilsstöðum, Hljómahöllinni á Suðurnesjum, Þrykkjunni Vöruhúsi, Félagsheimilinu Hvammstanga og Óðali Borgarnesi.