Flestir eru duglegir að flokka rusl um jól og áramót eins og á öðrum tímum ársins, segir Ragna Halldórsdóttir frá Sorpu. Hún bendir meðal annars á að jólatrjám þarf að skila á endurvinnslustöð með öðrum garðaúrgangi og ónotaðir skoteldar þurfa að fara í spilliefnagáma.

Sorpa hefur sett fram lista yfir það á heimasíðu sinni hvernig best sé að flokka og losa sig við „jólaruslið" sem fylgir hátíðunum. Ragna mætti einnig í Morgunútvarp Rásar 2 og gaf ráðleggingar um það hvernig best sé að losa sig við jólarusl af ýmsu tagi.

Flest liggur í augum uppi, segir Ragna: Jólapappírinn fer með pappír og pappa og plastumbúðirnar með plastinu. Mandarínukassar fara með lituðu timbri en svo má líka gera dúkkurúm úr kössunum og sumir nota þá sem hirslur. Jólaseríur fara með raftækjum.

Jólatrjám þarf hins vegar að skila á næstu endurvinnslustöð þar sem tekið er á móti þeim með öðrum garðaúrgangi, og bendir Ragna á að tréð megi einfaldlega saga niður heima til að auðvelda flutninginn. Smærra flugeldadót má fara í ruslið þegar búið er að sprengja það en skottertur má setja í gám fyrir blandaðan úrgang á endurvinnslustöð. Ónotuðum skoteldum þarf svo að skila í spilliefnagáma og mega þeir alls ekki fara í almennt rusl.