Almannavarnir sveitarfélagsins Hornafjarðar halda íbúafund í Öræfum í kvöld. Víðir Reynisson, verkefnastjóri almannavarna á Suðurlandi, segir íbúafundi skipta öllu máli. „Það er enginn tilgangur að vera að skrifa einhverjar viðbragðsáætlanir og búa til plön ef íbúarnir eru ekki með í því. Þeir eru lykilaðilar í okkar viðbúnaði og það skiptir öllu máli að fá þeirra álit og þeirra tillögur að því hvernig við vinnum þetta oghugmyndir að því hvernig við útfærum rýmingar og annað slíkt.“
Vísindamenn frá Jarðvísindastofnun og Veðurstofu Íslands ætla á íbúafundinum að fara yfir nýjust mælingar á Öræfajökli sem voru gerðar í vor og sumar. Fylgst hefur verið náið með jöklinum frá því skjálftavirkni hófst í honum árið 2016. Einnig verður á íbúafundinum í kvöld rætt um sprunguna sem fannst í vesturhlíðum Svínafellsheiðar fyrir fjórum árum. Hún hefur verið að gliðna á ári hverju síðan.
Almannavarnir komu í Öræfi í gær. „Við erum að fara yfir það sem er efst á baugi varðandi náttúruvánna. Búin að vera að funda í dag um þessa skriðuhættu sem getur komið hér niður á Svínafellsjökulinn og setur þar af leiðandi með tilheyrandi flóðum byggð hér í hættu. Búin að fara yfir mögulegar sviðsmyndir í því. Við erum búin að funda með þeim íbúum sem búa hér á mesta hættusvæðinu og þeirra upplifun og hefja vinnu við viðbragðsáætlanagerð. Fara yfir það með þeim hvernig við viljum sinna því, hvernig við getum komið viðvörunum á framfæri og annað slíkt,“ sagði Víðir í viðtali við Láru Ómarsdóttur í beinni útsendingu í fréttum sjónvarps.
Neyðarrýmingaráætlun var útbúin fyrir hugsanlegt eldgos í Öræfajökli. Hvernig gengur vinnan við viðbragðsáætlunina sjálfa? „Hún gengur bara nokkuð vel. Þetta er mjög umfangsmikið. Það er að mjög mörgu sem þarf að huga, ekki bara flóðunum heldur öskufallinu og síðan þurfum við að skoða ferðamannastrauminn og annað. Þannig að það er að mörgu að hyggja. Við stefnum að því að vera með fyrstu útgáfu tilbúna um áramótin. Vonandi getum við síðan haldið hér stóra æfingu á næsta ári þar sem við förum í gegnum þessar rýmingar í heild sinni og fáum íbúa og aðra á svæðinu til að taka þátt í því með okkur, til þess að láta reyna á þetta og hvort við séum á réttri leið með kerfið.“
Fjallað verður ítarlega um Öræfajökul í Kveik á þriðjudag og hinar fjórar eldstöðvarnar sem vaktaðar eru sérstaklega þessa dagana.