Formenn fjögurra verkalýðsfélaga hafa fengið umboð til að slíta viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Það getur hugsanlega gerst eftir fund í dag, nema atvinnurekendur komi með útspil sem komi lífi aftur í viðræðurnar. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, leggur megináherslu á að menn forðist verðbólguskot með öllum tiltækum ráðum og bendir á að verkföll valdi umsvifalaust verulegu fjárhagslegu tjóni.
Í Morgunútvarpi Rásar 2 sagði Halldór Benjamín að komið væri að einhvers konar vatnaskilum í viðræðunum.
Kjaraviðræður snúist um uppbyggingu lífskjara og þróun samfélagsins. Samtök atvinnulífsins hafi lagt fram heildstætt tilboð þar sem þau meti hvað samfélagið geti borið án þess að farið verði í verðhækkanir, uppsagnir og verðbólga fari af stað. „Samtök atvinnulífsins munu ekki hleypa verðbólgunni af stað," ítrekaði hann.