Bandarískir vísindamenn áætla að á milli hundruð og þúsund milljónir fugla drepist árlega við það að fljúga á byggingar þar í landi. Vandinn er stærstur þar sem farfuglar fara um, meðal annars í Chicago og New York. Snorri Sigurðsson, líffræðingur hjá Reykjavíkurborg, segir þetta ekki koma á óvart þar sem stórum glerhýsum hafi fjölgað víða um heim. Borgin Toronto í Kanada er á farleið fugla og þar hafa verið settar reglur um glerhýsi.

„Þetta er áberandi meira í sumum borgum en öðrum. Þær þurfa að vera stórar og mikið af glerháhýsum og borgir sem eru á farleið fugla þar sem stórir hópar af fuglum, sérstaklega smáfuglum eru að fljúga í gegn. Þar er hættan greinilega lang mest og þessar tölur eru hæstar,“ sagði Snorri í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Hafa sett reglur um glerhús

Algengt er að farfuglar fljúgi ákveðnar leiðir, oft upp með ám, ströndum eða þar sem mikilvæg fæðuöflunarsvæði eru. Stórir hópar og ólíkar tegundir fljúga svipaðar leiðir, að sögn Snorra. „Borgir sem eru staðsettar við strendur eða ár eru á versta stað fyrir fuglana.“ Nú liggur frumvarp fyrir Bandaríkjaþingi sem felur í sér reglur sem borgir geta nýtt sér til að sporna við því að byggð séu glerhýsi sem eru hættuleg fuglum. Borgin Toronto í Kanada er á farleið fugla og segir Snorri að þar hafi verið settar reglur um glerhýsi sem taka mið af þeirri hættu sem þau geta skapað fyrir fugla. Smáir spörfuglar virðast verða fyrir mestu hnjaski við árekstur við glerbyggingar. Líklegast er að þeir drepist eftir slíkan árekstur en það kemur einnig fyrir aðra fugla.  

Speglagler getur verið hættulegt fuglum

Gler sem hægt er að sjá í gegnum og glergöng á milli bygginga eru sérstaklega hættuleg fyrir fugla og sömuleiðis gler sem speglar. Fuglar geta séð tré eða gróður speglast í glerinu og flogið á það. Í Bandaríkjunum er nú farið að minnka glermagnið og vera með gler sem fuglar sjái, þannig geti þeir breytt um stefnu þegar þeir átta sig á því að stefni á gler. Niðurstöður rannsóknar sýna að mun fleiri fuglar í Bandaríkjunum drepast í árásum katta en í árekstum við glerhýsi.

Varptíminn að byrja hér á landi

Stórum glerhýsum hefur einnig fjölgað hér á landi og segir Snorri því mikilvægt að hugsa út í þessi atriði þegar slík hús eru hönnuð. Hér á landi eru það þó kettirnir sem skapa mesta hættu fyrir fugla, líkt og í Bandaríkjunum, enda reyna þeir að veiða fuglana. Snorri segir að oft dugi að setja bjöllu á kettina, einnig eru til litríkir kragar sem hægt er að setja á kettina svo að fuglarnir sjái þá og geti forðað sér. Snorri mælir með því að köttum sé haldið inni við á meðan mesti varptíminn stendur yfir. Varptíminn fer að byrja og eru svartþrestir byrjaðir í sinni hreiðurgerð.   

Snorri segir að hér á landi geti einnig verið erfitt fyrir fuglana að finna æti þegar hart er í ári. „Fuglar í borginni hafa það þó oft betra en aðrir. Hér er hægt að finna skjól og fæðu allan ársins hring.“