Ungmenni sem vinna mikið með skóla eru líklegri til þess að finna fyrir stoðkerfiseinkennum en þau sem ekki vinna, segir Margrét Einarsdóttir, nýdoktor í félagsfræði. Hún hefur rannsakað vinnutengda heilsu og öryggi 13-19 ára ungmenna og telur að auka þurfi vinnuverndarfræðslu í skólum, auk þess að atvinnurekendur og ungmennin sjálf þurfi að vera meira vakandi. Stoðkerfisverkir á unglingsárum geti leitt til langvarandi verkja og í verstu tilfellum til örorku á fullorðinsárum.
Algengt er að íslensk ungmenni vinni, ekki bara sumarvinnu, heldur líka með skóla. Margrét hefur rannsakað vinnutengda heilsu og öryggi 13-19 ára ungmenna og í Morgunútvarpi Rásar 2 sagði hún frá fyrstu niðurstöðum.
Margrét hefur kannað hvort það séu tengsl milli þess að vinna með skóla og þjást af stoðkerfiseinkennum, til dæmis vöðvabólgu, verkjum í hálsi og herðum, liðum og vöðvum eða baki. Hún segir að komið hafi í ljós marktækur munur á þeim sem vinna ekki með skóla og þeim hópi sem vinnur mikið með skóla, þ.e. meira en tólf klukkustundir á viku, sem er það sem reglur fyrir grunnskóla miða við sem hámark, og eru í fastri vinnu en þá má gera ráð fyrir að þau stjórni síður vinnutímanum. Þessi hópur er líklegri til þess að finna fyrir stoðkerfiseinkennum en þeir sem ekki vinna og þeir sem eru í hóflegri vinnu falla þar á milli.
Bakverkir eru mest áberandi, segir Margrét, og stelpur finna frekar fyrir stoðkerfiseinkennum en strákar, sem er í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna sem benda til þess að vinna bitni harðar á stoðkerfi kvenna. Hins vegar eru fáar rannsóknir til á vinnu ungmenna.
„Ungmennin sjálf þurfa að hafa í huga að það getur bitnað á heilsu þeirra að vinna með skóla. Hins vegar er ákveðinn hópur ungmenna sem þarf að vinna með skóla. Í doktorsrannsókn minni kannaði ég hvers vegna ungmenni væru að vinna og það er hópur sem notar þennan pening til að borga fyrir „skólagjöldin", þ.e. kostnað við að ganga í skóla. Og svo er líka hópur sem er að kaupa mat og jafnvel borga húsnæði. Við þurfum að hafa það í huga og ég vil ekki fara að fordæma vinnuna. Þetta er líka stuðningur við heimili þó þau séu eingöngu að sjá fyrir sinni eigin framfærslu. Og þau eru líka svolítið að safna fyrir framtíðinni, þau eru mörg hver að leggja fyrir. En þau þurfa að hafa þetta í huga, kannski bara líka sjálf að reyna að gera æfingar og annað. Svo er náttúrulega ábyrgðin líka atvinnurekenda. Því þau eru mörg í einhæfum störfum. Ég tók líka viðtöl við krakka og fékk dálítið sláandi dæmi, sérstaklega úr veitingageiranum. Þar voru dæmi um mjög langar vaktir og mjög mikið vinnuálag. Atvinnurekendur ættu náttúrulega sérstaklega með bakið, það er eitthvað sem þeir geta mjög auðveldlega brugðist við."
„Rannsóknin sýnir líka að það skortir vinnuverndarfræðslu í skólum. Innan við þriðjungur segist hafa fengið vinnuverndarfræðslu í skóla og það var þá farið mjög grunnt í þá fræðslu, nema hjá iðnnemunum sem er svolítið annar hópur, þau eru að búa sig undir störf í sinni iðn. Og það er líka lítill hópur sem fær öryggisþjálfun þegar þau koma á vinnustað. Það eru bara milli 14 og 15 prósent, hvoru tveggja í sumarvinnu og vinnu með skóla."
Margrét segir að einkennin geti verið beinlínis tengd vinnunni en líka tengd streitu. „Það er svo mikið að gera í lífi þeirra. Eins og hjá fullorðna fólkinu, það er náttúrulega brjálað að gera og mikið álag og við þurfum að huga að því líka."
Hún bendir á að stoðkerfisverkir á unglingsárum geta leitt til langvarandi verkja og í verstu tilfellum til örorku á fullorðinsárum. „Ég held að á eftir geðvandamálum séu stoðkerfiseinkenni það sem helst veldur örorku á Íslandi og þetta er evrópskt vandamál líka."
Er vinnuþátttaka íslenskra ungmenna meiri en annars staðar?
„Það er núna nokkuð ljóst að mikill meirihluti, frá svona 15-16 ára aldri, er í sumarvinnu. Það er svolítið séríslenskt. En það þekkist á öðrum Norðurlöndum líka. Vinna með skóla þekkist alveg í öðrum löndum líka. Ég hef lengi skoðað vinnu þessa aldurshóps og tel að það sé ekki eðlismunur á vinnu þeirra hér á landi og annars staðar."