Einungis fjórðungur þjóðarinnar er hlynntur aðild Íslands að Evrópusambandinu, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups. Nærri 60% fylgismanna Samfylkingar vilja aðild en 70-75% kjósenda Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna eru andvíg aðild.
Andstaðan gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu virðist hafa farið vaxandi eftir Hrun, þó að erfitt sé að bera saman kannanir. Til dæmis er ýmist spurt um afstöðu til aðildar og til umsókanr um aðild.
Nú spurði Gallup beint: „Ertu hlynntur eða andvígur aðild Íslands að ESB?“ 60% segjast andvíg aðild, 14% hafa ekki ákveðna skoðun en 26% eru hlynnt aðildinni.
Fyrir hálfu öðru ári sögðust 64% þjóðarinnar hlynnt því að hefja viðræður um aðild samkvæmt könnun frá sama fyrirtæki. Í könnun, frá því í febrúar, þar sem spurt er beint um hug til aðildar reyndust 33% hlynnt henni. Áhuginn á því að ganga í sambandið virðist því fara þverrandi.
Minnstur er áhuginn hjá kjósendum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks samkvæmt nýju könnuninni og í báðum flokkum eru þrír af hverjum fjórum á móti aðild. Heldur fleiri eru hlynnt aðild í kjósendahópi Vinstri grænna þó andstaðan sé þar afgerandi. Þveröfug hlutföll birtast hjá Samfylkingarmönnum þar sem tæp 70% eru ákveðið hlynnt aðild.
Nokkuð athyglisvert er að innan við helmingur svarenda telur sig þekkja vel kosti og galla ESB aðildar og viðurkennir fjórðungur mikið þekkingarleysi.
Þá kemur fram að fólk treystir innlendum fjölmiðlum fremur illa til að fræða sig um kosti og galla aðildar. Aukin meirihluti þjóðarinnar segist þó helst vilja fá upplýsignar um þá kosti og galla í umræðu- og heimildarþáttum í útvarpi og sjónvarpi.