Til stendur að fara í sérstakt markaðsátak til að koma að réttum upplýsingum um Ísland og eldgosið í Eyjafjallajökli. Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir slíkt átak nauðsynlegt til að bjarga þessu ferðamannasumri.

Tafir á flugi vegna eldgossins hafa orðið til þess að ferðamenn hafa ýmist ekki komist í fyrirhugaðar ferðir hingað til lands eða afbókað fyrirhugaðar ferðir í apríl og maí. Þá hefur mjög dregið úr bókunum. Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar vonast til að þetta breytist með betri flugsamgöngum. „Þá verðum við auðvitað að horfa á tækifærin og þá þurfa allir að snúa bökum saman. Það er eiginlega að duga eða drepast varðandi sumarið.“

Fyrirtæki í ferðaþjónustu óttast allt að þrjátíu milljarða tekjutap ef ekkert verður að gert. Erna segir nauðsynlegt að fara í öflugt markaðsátak. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segir að hugmyndir um markaðsátak í ferðaþjónustu verði kynntar í ríkisstjórn í fyrramálið. „Það er von mín að við getum farið hratt af stað vegna þess að við megum engan tíma missaVið þurfum að verja þá markaði sem við höfum þegar unnið í ferðaþjónustunni og koma þeim skýru skilaboðum á framfæri að ferðamenn séu öruggir á Íslandi.“ Katrín vonast til að bókunum fjölgi á ný þegar rétt skilaboð komast áleiðis. Þá geti falist sóknarfæri í eldgosinu þar sem landið hefur verið mikið í erlendum fjölmiðlum.