Íslendingar vinna langan vinnudag. Atvinnuþátttaka kvenna er óvíða jafn mikil og hér og þótt fæðingartíðni hafi vissulega lækkað þá eignast Íslendingar enn þá tiltölulega mörg börn.

Þær Andrea Sigrún Hjálmsdóttir, lektor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, og Marta Einarsdóttir, sérfræðingur á Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri eru að rannsaka það hvernig barnafólki gengur að samræma fjölskyldulíf og atvinnu. Rannsóknin byggir á rýnihópaviðtölum við foreldra á Akureyri og í Reykjavík. 

Eins og hamstrar á hjóli

„Það var talað um togstreitu og fólk lýsti því að það væri eins og hamstur á hjóli,“ segir Marta. Enn er verið að vinna úr niðurstöðunum en allt bendir til þess að foreldrar á Íslandi finni fyrir talsverðri streitu þegar kemur að því að púsla saman vinnu og fjölskyldulífi. Foreldrar ungra barna finna fyrir meira álagi og álagið eykst eftir því sem börnunum fjölgar. Dæmi um streituvalda eru tómstundir barna, húsverk sem sitja á hakanum og starfsdagar í skólum og leikskólum sem setja skipulagið úr skorðum. 

„Það var dáltið áberandi hversu miklu máli það viritst skipta ef annar aðilinn gat verið í hlutastarfi og það var það sem virtist helst daga úr streitu,“ segir Marta og Andrea bendir á að í viðtölunum hafi komið fram óskir um styttri vinnuviku. „Það var mjög sterkur þráður í gegnum öll viðtölin, bæði hjá konum og körlum,“ segir Andrea. 

Skipulagið er fyrir öllu

Hjónin Þórey Sjöfn Sigurðardóttir og Ellert Örn Erlingsson á Akureyri eiga fjögur börn á aldrinum þriggja til ellefu ára. Þau eru bæði í fullri vinnu en segjast ekki finna mikið fyrir álagi og streitu.

„Gott skipulag, það er númer eitt tvö og þrjú,“ segir Þórey þegar hún er spurð að því hvað skipti mestu máli til þess að allt gangi upp. Þau eru líka heppin með staðsetningu því þau búa í göngufæri við skóla og leikskóla.  „Strákarnir bjarga sér mikið sjálfir, við erum alveg að skutla á æfingar en við reynum líka að púsla saman með vinum, samnýta ferðir og svona. Yfirleitt gengur þetta mjög vel.“

Landinn forvitnaðist um rannsóknina þeirra Andreu og Mörtu og fylgdist með annasömum degi hjá Þóreyju og Ellerti.