Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum markar ákveðin tímamót og er mun metnaðarfyllri en fyrri stefna stjórnvalda í málaflokknum, að mati Auðar H. Ingólfsdóttur, alþjóðastjórnmálafræðings hjá hjá Rannsóknarmiðstöð ferðamála á Akureyri. Hún hefur sérhæft sig í loftslagsmálum.

Aðgerðaáætluninni fylgir 6,8 milljarðar króna og segir Auður það skipta miklu máli til að fá hreyfingu á hlutina. Jón Þór Kristjánsson, fréttamaður, ræddi við Auði í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum í kvöld. „Mér finnst þetta vera vísbending um að loftslagsmálin séu að verða miðlægari í íslenskum stjórnmálum. Þau hafa verið dálítið jaðarmál sem hefur verið talað um á hátíðarstundum en eftirfylgni vantað og það er mjög gott mál,“ segir hún.

Auður bendir á að aðgerðaáætlunin nái ekki yfir öll svið losunar, heldur aðeins þau sem íslenska ríkið beri ábyrgð á vegna Parísar-samkomulagsins. Stóriðjan sé ekki undir í aðgerðaáætluninni þar sem hún sé undir reglum Evrópusambandisins og viðskiptakerfisins þar. „Við erum með alþjóðaflugið sem við erum ekki enn þá búin að ná utan um. Nú erum við byggja okkar hagkerfi sífellt meira á ferðamennsku og erum að losa kannski álíka mikið af koltvíoxíð út í andrúmsloftið með alþjóðafluginu til að fá alla þessa ferðamenn til landsins og eins og öll álverin hérna.“

Í aðgerðaáætluninni er ákveðið ákall um að almenningur og ekki síst fyrirtæki taki höndum saman. Auður vill sérstaklega nefna flugfélögin í því samhengi, að þau skoði þessi mál hjá sér. Loftslagsmálin séu þannig viðfangsefni að við verðum öll að ganga í takt.