Metfjöldi íbúða í byggingu í Mývatnssveit

01.02.2017 - 10:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Björgvin Kolbeinsson
Mörg ár eru síðan jafn margar íbúðir hafa verið í byggingu í Mývatnssveit og um þessar mundir. Sveitarstjórinn þakkar það heilsársstörfum í ferðaþjónustu. Ungir Mývetningar séu að flytja aftur heim.

Til tíðinda telst þegar íbúðarhús rís í Reykjahlíðarþorpi. Hvað þá þegar mörg hús eru byggð á sama tíma. Síðast var íbúðarhús reist þar haustið 2015 þegar ný gata var lögð í þorpinu. Fyrsta íbúðagatan í áratugi.

Níu íbúðir í byggingu

Nú er hafin bygging níu íbúða við götuna og fleiri eru í bígerð. „Þetta eru ferðaþjónustufyrirtæki aðallega sem eru að því,“ segir Þorsteinn Gunnarsson. sveitarstjóri Skútustaðahrepps. „Svo eru hérna einbýlishúsalóðir sem eru líka lausar og við höfum fengið fyrirspurnir um þær. Þannig að ég á von á að þær fari út líka.“ Þá segir hann í skoðun að sveitarfélagið sjálft byggi þarna íbúðir. „Sveitarfélagið á húsnæði sem þarfnast viðhalds og við erum jafnvel að spá í að selja og þá að skoða hvort að eigi að byggja hérna líka.“

Vantar húsnæði fyrir nýtt starfsfólk

Fyrirtækin sem eru að byggja þarna, og Þorsteinn minnist á, eru Jarðböðin í Mývatnssveit og Fosshótel. Guðmundur Þór Birgisson, framkvæmdastjóri Jarðbaðanna, segir fyrirtækið hafa gefist upp á að leita að húsnæði fyrir nýtt starfsfólk. „Þannig að það var ákvörðun tekin um að byggja hérna íbúðir, tvö raðhús. Og við erum að byggja sjö íbúðir sem eru hugsaðar fyrir starfsfólk og jafnframt þá út á almennan leigumarkað.“

Ungt fólk að flytja aftur heim

Hann segir þetta meðal annars ungt fjölskyldufólk, Mývetningar, sem var flutt í burtu en snúi nú heim í heilsársstörf í ferðaþjónustu. Og sveitarstjórinn segir þetta gerast í auknum mæli. „Við höfum aðeins farið yfir það að ungt fólk, sem hefur verið að koma í þessi störf, að það hefur alist upp hérna eða á bara góða tengingu hingað. Og við tökum þeim að sjálfsögðu fagnandi,“ segir Þorsteinn Gunanrsson.