Merkir steingervingar sýndir á Brjánslæk

16.08.2016 - 13:58
Mynd með færslu
Frá sýningunni um Surtarbrandsgil. Mynd af vef Umhverfisstofnunar  Mynd: RÚV
Steingervingar, sem eitt sinn fundust í náttúruvættinu Surtarbrandsgili á Barðaströnd, eru nú til sýnis á sýningu á Brjánslæk sem tileinkuð er gilinu. Steingervingarnir eru úr safni Náttúrufræðistofnunar Íslands. Umhverfisstofnun stendur að sýningunni í samstarfi við ábúendur á Brjánslæk.

Surtarbrandsgil er einn merkasti fundarstaður plöntusteingervinga á Íslandi og sá tegundaríkasti að því er fram kemur á vef Náttúrufræðistofnunar um sýninguna. 

Alls hafa fundist 65 tegundir í Surtarbrandsgili og þar af nokkrar sem ekki hafa fundist annars staðar á Íslandi, segir Náttúrufræðistofnun. Margar tegundanna séu nú útdauðar. Fornölur, Íslandsbirki og Íslandshlynur eru algengustu tegundirnar. Steingervingarnir gefa meðal annars vísbendingar um loftslag hér á landi fyrir 12 milljónum ára. Talið er að ársmeðalhiti hafi þá verið allt að 10 stigum hærri á Celsius en nú er. 

Þótt Surtarbrandsgil hafi verið friðlýst náttúruvætti 1975 hafa steingervingar verið fjarlægðir þaðan og er svæðið á rauðum lista Umhverfisstofnunar, segir í tilkynningu Náttúrufræðistofnunar. 

Sýningunni er ætlað að fræða almenning um jarðfræði Surtarbrandsgils, að því er fram kemur á vef Umhverfisstofnunar um opnun sýningarinnar. Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra opnaði hana 12. ágúst. Sýningin er í gamla prestsbústaðnum á Brjánslæk og þar hyggjast ábúendur opna kaffihús næsta sumar. Í sumar verður boðið upp á leiðsögn um sýninguna og skipulagðar gönguferðir í Surtarbrandsgil. Á vef Umhverfisstofnunar segir að nánari upplýsingar fáist hjá landverði í síma 591 2000 eða 822 4080.

Mynd með færslu
 Mynd: Náttúrufræðistofnun Lovísa  -  RÚV
Úr Surtarbrandsgili
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV