„Þetta hafði mjög stuttan aðdraganda satt að segja. Ég kom bara fyrst til landsins á föstudaginn og við ræddum svo saman um helgina og svo tók þetta bara frekar skamman tíma,“ sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson um aðdragandann á því að hann skyldi taka við sem þjálfari A-landsliðs karla í handbolta í þriðja sinn. Guðmundur var kynntur sem landsliðsþjálfari í dag.
Þetta verður í þriðja sinn sem Guðmundur stýrir íslenska landsliðinu, en hann hafði áður verið landsliðsþjálfari Íslands 2001-2004 og svo 2008-2012. Síðan hann stýrði Íslandi síðast hefur hann þjálfað þýska félagsliðið Rhein-Neckar Löwen, danska landsliðið og landslið Barein. En af hverju að taka við Íslandi í þriðja sinn?
Liðið stendur á ákveðnum tímamótum
„Mér finnst þetta bara mjög ögrandi verkefni. Liðið stendur á ákveðnum tímamótum og mér finnst bara mjög spennandi að taka við liðinu á þessum tímamótum og gera allt sem ég get til þess að byggja upp lið á ný í fremstu röð. En það mun taka tíma. Ég ræddi við HSÍ og eitt af því sem mér fannst skipta miklu máli var að það yrði horft til lengri tíma, þriggja til fjögurra ára hvað það varðar. Það eru ungir menn að koma inn í liðið. Þeir þurfa líka tíma og það þarf að gefa þeim þann tíma. En mér fannst verkefnið vera öðru vísi núna en þegar ég þjálfaði liðið síðast. Þá var ég með mun reynslumeiri menn. En þetta er mjög spennandi núna,“ sagði Guðmundur.
Jafnvel þó svo að Ísland hafi ekki komist upp úr riðlakeppni EM í Króatíu í janúar, telur Guðmundur talsvert búa í íslenska liðinu.
Mikilvægt að komast inn á HM 2019
„Ég tel að það búi hellingur í liðinu og það eru líka nokkrir leikmenn á leiðinni sem mér finnst mjög spennandi kostur. En það er kannski ekki komið akkúrat að því núna eins og staðan er í dag. Ég tel að það búi mikið í þessu liði, en ég ætla mér svosem ekkert að vera með neinar stórkostlegar yfirlýsingar. Það er spennandi og mikilvægt verkefni fram undan núna fyrir liðið sem er að komast inn á næsta HM. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt fyrir íslenska landsliðið,“ sagði Guðmundur. Ísland mætir Litháen í tveimur umspilsleikjum í júní um laust sæti á HM 2019 í Danmörku og Þýskalandi.
Áður en kemur að þessum leikjum við Litháen fer Ísland á æfingamót í Noregi í byrjun apríl þar sem Ísland leikur við Noreg, Frakkland og Danmörku. „Það skiptir mjög miklu máli að fara á það mót. Auðvitað verður tíminn til æfinga mjög knappur. En ég þarf bara að nota hann vel og fara yfir það sem ég vil æfa í þessum leikjum á móti á Frökkum, Dönum og Norðmönnum. Þetta eru auðvitað engar smá þjóðir. Það mun reyna mikið á liðið þá og ég mun vonandi fá fullt af svörum líka.“
Einhverjar breytingar verða
Hvort miklar breytingar verði á leikmannahópnum vill Guðmundur ekki tjá sig mikið um það strax. „Ég þarf að skoða þetta allt mjög vel. Það verða einhverjar breytingar held ég. Mér svona sýnist það, án þess að ég vilji eitthvað vera að fara nánar út í það núna.“
„Það eru ákveðnar hugmyndir sem ég hef til dæmis með vörnina og hvernig hún verður spiluð og með hverjum. Þá vil ég hugsanlega skoða ákveðna menn í slíkar stöður og svo fram vegis. En ég er bara ekki tilbúin til að segja meira um það núna,“ sagði Guðmundur þegar RÚV ræddi við hann í dag.
Thomas Svensson hvalreki fyrir Ísland
Gunnar Magnússon verður aðstoðarþjálfari Guðmundar og Svíinn Thomas Svensson markmannsþjálfari. Gunnar var í þjálfarateymi Guðmundar hjá íslenska landsliðinu 2003-2004 og 2008-2012 og Thomas Svensson starfaði með Guðmundi hjá Rhein-Neckar Löwen, Danmörku og Barein.
„Ég hef unnið með Gunna frá 2003 og hann er auðvitað mjög hæfur þjálfari og hefur marg sannað það hér á Íslandi með frábærum árangri. Thomas Svensson hefur verið samstarfsmaður minn núna síðustu fimm ár allt í allt og átt einstaklega gott samstarf við hann. Hann er afar fær markvarðaþjálfari og við þurfum á því að halda. Hann kemur líka inn með mjög jákvæðan anda inn á æfingar og við þurfum bara á því að halda. Hann er algjör hvalreki fyrir okkur,“ sagði Guðmundur Guðmundsson nýráðinn landsliðsþjálfari Íslands í handbolta.