„Það var eitthvað mjög ferskt þarna, eitthvað sem ég hef ekki séð áður,“ segir Erla Björg Gunnarsdóttir um leiksýninguna Club Romantica í Borgarleikhúsinu. Gestir Lestarklefans voru ekki síður spenntir fyrir Club Romantica en spennuþættinum Ófærð.
Í Club Romantica sýnir Friðgeir Einarsson áhorfendum myndaalbúm sem hann keypti á flóamarkaði í Belgíu fyrir nokkru síðan. Við þekkjum ekki fólkið á myndunum og það er ráðgáta af hverju albúmið var til sölu. Það eina sem við vitum er að belgísk kona fór í frí til Mallorca fyrir 40 árum og tók myndir af sér og vinkonu sinni. Friðgeir segir sögu fólksins á myndunum og sviptir hulunni af því hvað varð um þessa belgísku konu. Friðgeir Einarsson hefur starfað með hópum á borð við Kriðpleir, Sextán elskendur og Íslenska dansflokkinn. Hann hefur einnig gefið út þrjú skáldverk, smásagnasöfnin Takk fyrir að láta mig vita og Ég hef séð svona áður og skáldsöguna Formaður húsfélagsins. Með Friðgeiri á sviðinu er tónlistarmaðurinn Snorri Helgason sem semur tónlist sérstaklega fyrir verkið.
„Mér fannst þetta algjörlega frábært leikhús. Það var eitthvað mjög ferskt þarna, eitthvað sem ég hef ekki séð áður,“ segir Erla Björg fréttastjóri Stöðvar 2 um leiksýninguna. Erla segir magnað að þrátt fyrir að Friðgeir sé nánast með eintal á sviðinu í 90 mínútur þá haldi hann athygli manns allan tímann. „Maður verður forvitin frá byrjun til enda og það er alveg skemmtilegt. Af því við ræddum um Ófærð fyrr og spennuþætti, ég var ekki minna spennt hérna. Það er farið vel og vandlega yfir þessa leit hans, mjög nákvæmlega og í smáatriðum en þeta hélt manni allan tímann. Algerlega frábær sýning,“ segir Erla Björg sem ætlar að kynna sé frekar fyrri verk höfundarins Friðgeirs Einarssonar.
Hrafn Jónsson segist ekki þekkja til Friðgeirs en eigi sameiginlega vini sem tala um að allt sé þetta Friðgeiri eðlislægt og hann þurfi ekki að leika það að vera svona pínu týndur og vandræðalegur. „Þetta heldur manni svo spenntum og hann sem sögumaður er svo mikill lykill í því. Það sem gerir hann að svona góðum einkaspæjara, svolítið eins og Ásgeir í Ófærð, er að hann er svona vanhæfa löggan. Það sem gerir þessa rannsókn hans á þessu máli svolítið fyndna og skemmtilega eru gallar hans. Hann á erfitt með að spyrja fólk nærgöngulla spurninga og láta því líða vandræðalega, hann kemur hlutum illa í orð og er lélegur að gúggla. Hefði hann ekki verið svona lélegur í þessu, eða fundist þetta óþægilegt þá hefði hann getað leyst þetta talsvert hraðar,“ vill kvikmyndagerðarmaðurinn Hrafn Jónsson meina og segir það einmitt sjarmann í sýningunni, breyskleiki Friðgeirs sem einkaspæjari. Hrafn segir jafnframt að umfjöllunarefnið sé fyrir fram alls ekki spennandi, enginn sé að biðja um að þessi mystería sé leyst en hann lætur það ganga upp.
Rithöfundurinn Oddný Eir Ævarsdóttir var jafn hrifin af leiksýningunni Club Romantica og sessunatar hennar í Lestarklefanum. Oddný segir að á köflum hafi hún velt fyrir sér hvers eðlis þessi gjörningur væri. „Þetta er svakalega vel gert hjá honum, því að þetta er á mörkunum að vera myndlist. Þetta er myndlistargjörningur, þetta er leikhús í tvívídd. Maður veit ekki alveg hvað þetta er? Ég hugsaði hvort þetta væri kannski texti, eða er þetta myndlist? Nei, þetta er leikhús. Honum tekst að gera flott leikhús. Mér fannst Snorri Helgason bæta miklu við sýninguna. Tónlistin gerði það að verkum að þetta varð einhver vídd, þetta varð einhver samræða. Fallega gert milli þeirra, svona vinskapur í því,“ segir Oddný Eir.