Menningarverðmæti í hættu í Skálholti

Innlent
 · 
Menningarefni

Menningarverðmæti í hættu í Skálholti

Innlent
 · 
Menningarefni
19.03.2017 - 18:18.Þórdís Arnljótsdóttir
Svo bágt er ástandið á kirkjugluggunum í Skálholtsdómkirkju að karmar eru fúnir vegna stanslauss raka og gluggarnir eru beyglaðir. Viðgerðarkostnaður nemur allt að 70 milljónum króna og heitir formaður stjórnar Skálholts á hjálp fyrirtækja, stofnana og almennings svo forða megi menningarverðmætunum frá frekari eyðileggingu. 

Gerður Helgadóttir vann samkeppni um að gera steinda kirkjuglugga, 43 talsins, í Skálholtsdómkirkju fyrir rúmum fimmtíu árum og voru þeir smíðaðir á Oidtmann verkstæðinu í Þýskalandi. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Drífa Hjartardóttir

„Hér er náttúrulega þessi lárétta rigning okkar sem að bylur á. Svo hefur nú kannski eitthvað gerst hér í jarðskjálftunum tveimur sem að voru árið 2000 og svo 2008 að þá hefur trúlegast eitthvað skemmst líka og hjálpað til að vatnið hefur átt greiðari leið með að komast þarna inn“, segir Drífa Hjartardóttir formaður stjórnar Skálholts. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hlífðargluggar eru að utanverðu og á milli þeirra og steindu gluggana er fúi og oft safnast töluvert vatn á milli. Styrktarstangir sem skorða steindu gluggana eru víða lausar. Blý hefur aflagast og sprunga er í nokkrum glerjum. Að innanverðu má hreinlega sjá að gluggarnir eru beyglaðir, því styrktarstangir hafa losnað. Hægt að ímynda sér að lítið þurfi til til að þeir gefi alveg eftir.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hér bungar glugginn út og hefur aflagast.

Oidtmann verkstæðið gerði úttekt 2010 og svo 2014 og hafði þá ástandið versnað. Í skýrslu verkstæðisins eru lagðar til tafarlausar viðgerðir og þá með mun betri frágangi á ytra byrði en nú er.

Mynd með færslu
 Mynd: Oidtmann verkstæðið í Þýsk  -  RÚV

Drífa segir að ferlið sé nokkuð flókið, flytja þurfa sérstaka gáma til Íslands, setja gluggana í þá og flytja til Oidtmann í Þýskalandi, gera við þá þar, flytja gluggana í gámunum til Íslands og svo gámana aftur til baka:
„Þannig að þetta kostar allt mikið fé.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tvær sprungur eru á altaristöflunni

Mósaíkaltaristaflan eftir Nínu Tryggvadóttur er líka skemmd. Talið er að sprungur hafi myndast eftir jarðskjálftana 2008 og 2000. Tiltölulega stutt er síðan skemmdanna varð vart. Tvær sprungur liggja lóðrétt í fúgu á tveimur stöðum. Og þá er fúga farin á nokkrum stöðum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Í fyrra var áætlaður kostnaður vegna gluggaviðgerðanna 70 milljónir króna. Nýstofnuð sjálfseignarstofnun, Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju, hefur umsjón með varðveislu og viðgerðum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frá messu í morgun

Drífa segir að svo lítill söfnuður eins og er í Skálholti hafi ekki fé til að ráðast í viðgerðir og að auki liggi fyrir úttekt verkfræðistofu á ástandi kirkjunnar. Í henni komi fram að endurbætur séu brýnar á byggingunni svo sjóðir kirkjunnar hafi ekki bolmagn til dýrra viðgerða á þeim menningarverðmætum eða þjóðargersemum eins og kirkjugluggunum og altaristöflunni.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Drífa segir að sótt hafi verið um styrk hjá húsafriðunarsjóði en fáist styrkur dugi hann líklega skammt: 

„Þess vegna verðum við að heita á almenning og fyrirtæki og stofnanir. Og ég ætla nú bara aðeins að skora á rútufyrirtækin, sem að koma hingað í Skálholt með fjölda ferðamanna, að þeir leggi okkur nú lið í þessu efni.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Tengdar fréttir

Listaverk í Skálholti skemmd