Á annað hundrað grindhvalir drápust á afskekktri eyju í Nýja-Sjálandi. Edda Elísabet Magnúsdóttir, doktor í sjávarlíffræði, segir ýmiskonar mengun af manna völdum hafa mjög afgerandi áhrif á hvali og annað lífríki í sjónum.
Hvalirnir fundust í Mason-flóa á Stewart-eyju, suður af Suðureyjum. Maður sem var á gangi um svæðið fann hvalina á laugardagskvöld og lét yfirvöld vita. Þá var helmingur þeirra dauður. Sökum hversu illa á sig kominn hinn helmingurinn var, og erfiðra aðstæðna á afskekktri eyjunni, var ákveðið að aflífa þá.
„Þessa stóru hópa er að reka á land vegna þess að þarna eru fjölskyldueiningar, náskyldar sem yfirgefa ekki hvorn annan. Ef einhver er veikur fyrir þá eru ekki viðbrögð þeirra að láta sig hverfa,“ segir Edda Elísabet.
Nokkrar mögulegar skýringar
Edda segir að þó ekki sé skýrt hvers vegna þetta gerist séu nokkrar mögulegar skýringar, þar á meðal mengun í umhverfinu eða hljóðmengun vegna heræfinga. Þá geti þetta verið veik dýr eða þá að þau séu að forðast rándýr. „Svo er líka ýmislegt sem gæti verið ástæða og það er til dæmis mengun af völdum mannsins, mengunin er margþætt. Það er til dæmis plast sem við erum farin að sjá safnast upp töluvert í mögum á sjávardýrum. Og við getum eiginlega verið nokkuð viss um að plast mengun í hafinu hefur, og mun halda áfram að hafa, mjög afgerandi áhrif á hvali og annað lífríki í sjónum,“ segir Edda.