52 prósent þeirra sem taka afstöðu ætla að segja nei við Icesave-lögunum en 48 prósent segja já. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup.
Capacent spurði hversu líklegt væri að fólk myndi kjósa með lögunum um Icesave samninginn eða á móti þeim þegar gengið verður til atkvæða á laugardag. Niðurstaðan er sú að af þeim sem tóku afstöðu hyggjast 52 prósent kjósenda fella samninginn en 48 prósent ætla að samþykkja hann á laugardag. Vikmörkin eru rúmlega þrjú prósent.
Tuttugu og eitt prósent þeirra sem svöruðu könnuninni tóku ekki afstöðu til þess hvort þau hygðust samþykkja eða fella samninginn. Þar af eru 15 prósent kjósenda enn óviss, tvö prósent ætla að skila auðu en fjögur prósent neituðu að svara spurningunni.
Könnunin var gerð dagana 31. mars og fram til dagsins í dag. 1900 lentu í úrtakinu en svarhlutfallið var rúmlega 59 prósent.