Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur segir að samviskubit Íslendinga yfir kaupum á plastpoka kunni að koma í veg fyrir að fólk sjái stóru myndina, sem sé óþarfinn sem pokinn geymir. Hann bendir á að meðal Íslendingur sé heilan dag að vinna sér inn fyrir 20 þúsund krónum og því þurfi að velta fyrir sér hvað sé þess virði að verja upphæðinni í.

Árlega samevrópsk Nýtnivika stendur nú yfir en markmið hennar er að draga úr myndun úrgangs og hvetja fólk til að nýta hluti betur og kaupa minna. Á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að Íslendingar þurfi að breyta neyslu sinni til að draga úr draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. 

Tólf kíló af óþarfa í tólf gramma plastpoka

Rætt var við Stefán Gíslason í Morgunútvarpinu í morgun. Hann skrifaði pistil í Samfélaginu á Rás 1 í síðustu viku sem vakið hefur mikla athygli og hefur verið dreift víða á samfélagsmiðlum. Stefán segir að Íslendingar séu neyslufrekari en flestar þjóðir. „Það er mikið talað um að banna einnota plastpoka og allt í góðu með það. En ef við förum að hugsa um það hvað er í svona plastpoka. Ég tók mig til í gærkvöldi og vigtaði einn svona burðarpoka úr plasti og hann var tólf grömm. Ég get farið út í búð og keypt fullt af drasli, eða við skulum segja óþarfa, í svona poka. Óþarfinn getur verið tólf kíló. Sem sagt ég er að fara heim með mjög slæma samvisku yfir því að ég er með tólf gramma plastpoka utan um tólf kíló af drasli. Þessi óþarfi á allt sína sögu, það hefur allt skilið eftir sig einhverja slóð í þess vegna fjarlægum löndum. Það er eins og maður hugsi ekki um það.  Ég er bara með samviskubit út af pokanum.“'

Stefán segir að auðvitað eigi að fólk bæði að velta fyrir sér kaupum á plastpoka og innihaldi pokans. „En tólf kílóa innihald hlýtur að skipta meira máli svo sem en tólf gramma poki. Við höfum einhvern veginn gefið okkur það að er allt í lagi að þó sé fullt af óþarfa í þessum poka.“

Pokinn fái alla athyglina. „Við erum svolítið mikið að hugsa um litlu hlutina sem er þægilegt að hugsa um en bægjum frá okkur að hugsa um stóru myndina.“

Hvetur til gagnrýni í innkaupum

Stefán vitnar í orð Bodil Jönsson, sem skrifaði bókina Tíu þankar um tímann. Þar setji hún fram þá pælingu að fólk fæðist með ekkert nema tíma og versli með hann út lífið. Flestir skipti honum út fyrir peninga, það er að segja vinna sér fyrir launum. „Þegar við kaupum okkur óþarfa sem kostar 20 þúsund kall, hann kostar meðal Íslending einn dag af lífinu. Maður þarf auðvitað að vera gagnrýninn á til hvers maður notar heilan dag af lífinu, nota ég hann til að kaupa óþarfa eða í eitthvað uppbyggilegt sem mér líður vel með að gera, tíma með fjölskyldunni eða hvað það er sem mig langar til að gera,“ segir Stefán og nefnir að mögulega hefði fólk frekar getað tekið sér frí frá vinnu í einn dag. 

Margir láti glepjast af tilboðum

Á föstudag er svokallaður svartur föstudagur og þá eru margar verslanir með sérstök tilboð. Fleiri tilboðsdagar hafa rutt sér til rúms á örfáum árum, dagar eins og dagur einhleypra og cyber mánudagur. Stefán segir að fólk láti oft glepja sig til að kaupa einhvern óþarfa sem þegar upp er staðið auki ekki vellíðan eins eða neins. „Einstök tækifæri eru ekki einstök, þau koma alltaf aftur og aftur. Við erum ekki að missa af neinu. Ég hef ekkert á móti því að fólk kaupi það sem það þarf á góðu verði en oft verður þetta til þess að fólk kaupir meiri óþarfa. Menn vita það alveg sjálfir, þeir hafa látið glepjast af tilboðum og keypt eitthvað sem þá vantaði ekki beinlínis og þar með látið einhvern hafa af sér dag úr lífi sínu, eða viku úr lífi sínu. Þetta safnast þegar saman kemur og á endanum er maður bara búinn með kvótann og líður ekkert vel með það.“

Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Stefán Gíslason í spilaranum hér fyrir ofan.