Meint brot enn til skoðunar hjá Einingu-Iðju

04.09.2017 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Carolien Coenen  -  Flickr
Í dag heldur áfram könnun stéttarfélagsins Einingar Iðju á meintum brotum á starfsfólki veitingastaðarins Sjanghæ á Akureyri. Eftirlitsmenn frá stéttarfélaginu fóru á veitingastaðinn í síðustu viku, en eigandinn er grunaður um vinnumansal.

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að beðið hefði verið um gögn frá fyrirtækinu, launaseðla, bankaupplýsingar og fleira.

Nú væri verið að fara yfir það sem borist hefði, en Björn reiknar með að stéttarfélaginu berist í dag öll gögn sem beðið hafi verið um. Í dag, eða fyrramálið, ljúki skoðun stéttarfélagsins á þessum gögnum og framhald málsins ráðist í framhaldi af því.

Fimm kínverskir ríkisborgarar vinna á Sjanghai og leikur grunur á að starfsfólkið fái greiddar þrjátíu þúsund krónur á mánuði í laun og borði matarafganga af veitingastaðnum.