Í tilefni af sjötugsafmæli Megasar birtum við brot úr þættinum „Það eru komnir gestir“ sem Ómar Valdimarsson stýrði.

Þátturinn var tekinn upp fyrri hluta vetrar 1974 en var ekki sendur út fyrr en 17. júní 2001. Megas var þar, ásamt Böðvari Guðmundssyni og Erni Bjarnasyni, fulltrúi íslenskra trúbadora. Hann hafði skrámast á auga og bar því lepp í viðtalinu.

Stundum er vísað til þáttarins sem „bannfærði“ þátturinn, en útvarpsráð kom í veg fyrir útsendingu hans á sínum tíma þar sem viðbúið var að söngtexti lagsins „Vertu mér samferða inní blómalandið amma“ færi fyrir brjóstið á kristnu fólki, eins og lesa má um á Tímarit.is.

Í brotinu útskýrir Megas listamannsnafnið sitt. „Ég tók mér þetta nafn til að dylja mig, ég vann í banka og það sem ég fékkst við, ritstörf og þvíumlíkt, féll ekki inn í þann móral sem þar ríkti ... til þess að passa að ekkert kæmist upp tók ég upp á því að ganga undir þessu nafni.“

Óróaseggur íslenskrar dægurtónlistar
Megas fæddist 7. apríl 1945 þegar síðari heimstyrjöldinni var að ljúka, sonur skáldkonunnar Þórunnar Elfu Magnúsdóttur og Jóns Þórðarsonar kennara og rithöfundar.

Hann ólst upp í Noðurmýrinni í Reykjavík og gekk í Austurbæjarskólann og svo Menntaskólann í Reykjavík. Megas féll fyrir Halldóri Laxness eins og poppstjörnu þegar hann las Gerplu í útvarpið. Á gelgjunni hafði rokkið og Elvis Presley mikil áhrif og síðar menn eins og Bob Dylan.

Í yfirlitsgrein Jónatans Garðarssonar um Megas segir að hann fjalli um ósómann allt í kringum sig í samtíð og fortíð. Hann snerti kvikuna berum höndum. Hann sé boðberi illra tíðinda, maðurinn sem yrkir um hluti sem hvískrað er um á bakvið luktar dyr, hluti sem fæstir vilja opinbera. Megas sé trúbadúrinn og rokkarinn sem dragi upp myndir af lastabælinu Reykjavík, varpi ljósi á bísalifnað, sýni okkur betri hliðar undirmálsfólks og snögga bletti betri borgaranna.

Hann sé sjáandinn sem skoði söguna í óvenjulegu ljósi. Hann steypi hetjum af stöllum og bregði marglitu ljósi á mannlega breyskleika. Megas sé óróaseggur íslenskrar dægurtónlistar, skáldið sem færi rokkinu dýpt söngljóðsins, maðurinn sem veki róttæklinga af blundi og sái frjókornum efasemda í sálir smáborgara