Milljónir íslenskra ljósmynda og verka í eigu íslenskra safna mega nú birtast á netinu, eftir að samningur þess efnis var undirritaður. Tímamótasamningur, segir formaður Myndstefs.
Mikill fjöldi ljósmynda og myndverka er í eigu íslenskra safna. Hingað til hefur ekki verið heimilt að birta myndirnar eða myndir af verkum á netinu, nema með sérstöku leyfi. Á fimmtudaginn í síðustu viku undirrituðu menntamálaráðherra, Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands samning við Myndstef um birtingu á safnkosti safnanna á Sarpi, sem er menningarsögulegt gagnasafn.
„Allar myndir, milljónir mynda eftir listamenn landsins, menningararfurinn okkar á Þjóðminjasafninu og Listasafni Íslands, þetta má allt fara út á netið,“ segir Ragnar Th. Sigurðsson, formaður Myndstefs.
Hafi viðkomandi listamaður eða aðstandandi hans hins vegar ekki áhuga á að myndir fari á netið, verði orðið við því, og því sé um eins konar ætlað samþykki að ræða.
Vinnan þegar hafin
Ragnar á von á því að flest önnur söfn landsins undirriti sams konar samning í framhaldinu, svo allur þeirra safnkostur geti líka farið á netið.
„Ég held að þetta sé allt upp í tugmilljónir mynda, allt í allt á öllum söfnum.“
Hvaða máli skiptir svona samningur?
„Þetta skiptir fyrst og fremst listamenn máli, að þeirra verk komist á netið og að það sé hægt að nota þau í kennslu. Og svo skiptir þetta bara fólkið í landinu máli, að það sé hægt að fara inn á netið og skoða hvað er til á söfnunum.“
Er þetta tímamótasamningur?
„Já. Tvímælalaust.“
Ragnar segir að söfnin séu þegar byrjuð að setja myndir inn á vefinn, sem sé hins vegar mikil vinna.