Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, gagnrýnir hvað ástandið hjá Brúneggjum hafi fengið að viðgangast lengi og að ekkert hafi verið að gert. Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir bændur þurfa að búa sig undir harðara eftirlit allra á sína framleiðslu. 

Rætt var við þau í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Í Kastljósi á mánudagskvöld kom fram að Matvælastofnun hefur allt frá árinu 2007, eða í tæpan áratug, haft upplýsingar um að Brúnegg uppfylltu ekki skilyrði sem sett voru fyrir því að merkja vörur sem vistvænar, en ekki upplýst neytendur. Í skýrslu stofnunarinnar er skelfilegum aðbúnaði dýra á eggjabúi fyrirtækisins lýst.

Haraldur segir búfjáreigandann bera mesta ábyrgð. „Við getum sagt að eftirlitsstofnunin hefði átt að ganga fyrr fram. Ef við tölum almennt um þetta burtséð frá þessu hræðilega máli. Eftirlitsstofnunin er líka með ákveðna reglu gagnvart þeim sem hún sinnir eftirliti hjá og gefur þeim aðila ákveðna fresti til úrbóta. En þarna blasir líka við að þeir ætluðu ekki að bæta úr. Það er tilfinningin sem maður fær.“

Haraldur segir Matvælastofnun hafa ríkar heimildir til að grípa inn í verði ekki bætt úr þeim athugasemdum séu þær gerðar.  Traust milli framleiðenda og neytenda hafi skaðast. 

Fram kom í Kastljósi að málið dagaði uppi í Landbúnaðarráðuneytinu og tafði framgang þess um rúmt hálft ár. Björt segir að þrátt fyrir að málið sé frávik þá eigi svona mál ekki að koma upp. Slík mál beri vott um mikla meðvirkni. Geti fólk ekki séð um dýr þá eigi það ekki að fá slaka til þess. 

„Við erum allt of lítið að horfa á þetta út frá dýravelferð, frekar út frá góðmennsku gagnvart þeim sem kannski hefðu vonandi viljað gera betur. Staðreyndin er bara síðan ekki þannig.“  Ráðuneytið hafi fyrir tíu árum fengið umsögn frá Neytendasamtökunum um vistvæna vottun þar sem sagði að vottunin gengi ekki upp, þetta væru villandi upplýsingar sem þýddu ekki neitt. „Það var ekki hlustað á það og þetta er búið að ganga svona síðan.“  Reglugerðinni hafi verið hent út á síðasta kjörtímabili eftir að Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar hafði þráspurt landbúnaðarráðherra út í málið á þingi landbúnaðarráðherra.  Ráðuneytið hefði í framhaldi átt að hafa samband við Neytendastofu en ekki gert það.