Meðan nóttin líður eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur er bók vikunnar. Á meðan nóttin líður kom fyrst út árið 1990 og vakti mikla athygli. Sagan segir frá Nínu, glæsilegri og öruggri nútímakonu sem vakir yfir deyjandi móður sinni ... en á meðan nóttin líður vakna spurningar. Hér má hlusta á Margréti Helgu Jóhannsdóttur lesa tvö brot úr bókinni báða úr fyrri hluta bókarinnar. Einnig má heyra við tal sem Friðrik Rafnsson tók við Fríðu í tengslum við útkoma bókarinnar og birtist í Leslampanum.
Á sunnudaginn, 6. mars tekur Auður Aðalsteinsdóttir á móti bókmenntafræðingunum Dagnýju Kristjánsdóttur og Soffíu Auði Birgisdóttur og ræðir við þær um bók vikunnar.
Fríða Á. (Áslaug) Sigurðardóttir fæddist á Hesteyri í Sléttuhreppi þann 11. desember 1940. Hún lauk Cand mag prófi í íslensku frá Háskóla Íslands 1979. Hún starfaði sem bókavörður á Háskólabókasafni og Ameríska bókasafninu frá 1964 til 1970, var deildarfulltrúi við heimspekideild Háskóla Íslands frá 1971 til 1973 og stundakennari við Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands frá 1973 til 1975. Frá 1978 starfaði hún alfarið við ritstörf.
Fyrsta bók Fríðu, smásagnasafnið Þetta er ekkert alvarlegt, kom út árið 1980. Hún sendi síðan frá sér fleiri smásögur auk skáldsagna og þýðinga á verkum erlendra höfunda. Skáldsaga hennar, Meðan nóttin líður (1990), hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 1991 og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1992.
Í umsögn dómnefndar sagði m.a.
Skáldsagan er djörf og nýstárlæg en býr einnig yfir ljóðrænni fegurð. Í verkinu er horfið til fortíðar í leitinni að lífsgildum sem fela í sér boðskap til samtíðar okkar. Sagan gerist í stórbrotnu landslagi Vestfjarðakjálkans og náttúrulýsingarnar eru hluti af fjölkyngi textans. Sagan reynir ekki að telja okkur trú um að við skiljum raunveruleika formæðra okkar að fullu. Hún vekur spurningar og er um leið mjög leitandi. Fríða Á. Sigurðardóttir lýsir á ljóðrænan hátt þörf okkar fyrir söguna og frásagnir og hve erfitt er að finna sannleika um lífið og listina.
Í kjölfar Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs var Meðan nóttin líður þýdd á Norðurlandamálin og ensku.
Fríða Á. Sigurðardóttir birti greinar um bókmenntir í blöðum og tímaritum og sendi frá sér ritgerð um leikrit Jökuls Jakobssonar. Síðasta verk Fríðu er skáldsagan Í húsi Júlíu sem kom út í október 2006. Fríða lést 7. Maí árið 2010.
Síðari lestur úr bók vikunnar sem er Meðan nóttin líður eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur sem segir frá Nínu sem vakir við sjúkrabeð móður sinnar og lætur hugann reika um líf sitt og hennar. Þessi kafli er framarlega úr bókinni. Margrét Helga Jóhannsdóttir les en sagan var lesin sem útvarpssaga á rás 1 árið 1999.