Meðallífslíkur Bandaríkjamanna hafa versnað undanfarin ár. Þeim sem falla fyrir eigin hendi eða látast af ofneyslu lyfseðilsskyldra lyfja hefur fjölgað talsvert.

Meðallífslíkur Bandaríkjamanns sem fæddist í fyrra eru 78 ár og sjö mánuðir. Þau sem fæddust 2015 og 2016 gátu átt von á að lifa mánuði lengur og þau sem fæddust 2014, tveimur mánuðum lengur. 

Í fyrsta sinn í áratugi minnka meðallífslíkur á milli ára. Bandaríkjamönnum fjölgar og þar með fjölgar dauðsföllum. Aukningin í fjölda dauðsfalla er þó ekki mest hjá elsta aldurshópnum.

„Þau eru á aldursbilinu 25 til 45 ára mestan part. Það koma allmargir þættir við sögu; faraldur dauðsfalla vegna ofneyslu lyfja skiptir miklu máli en einnig eykst uggvænlega tíðni sjálfsvíga og þá einkum til sveita,“ segir John Rowe, prófessor við Columbia háskóla. 

Sjálfsvígstíðni í Bandaríkjunum í fyrra var sú hæsta síðan 1975.

„Ég tel að víða um landið ríki vonleysi; fólkið er atvinnulaust og framtíðin óviss. Stjórnmál ala á sundrungu, launabilið breikkar og ég trúi því að vonleysi sæki æ meira á fólk. Og að það leiði til fíkniefnaneyslu og sjálfsvíga,“ segir William Dietz, prófessor við George Washington háskólann. 

Á meðan fjöldi dauðsfalla vegna eiturlyfja á borð við heróín stendur í stað, fjölgar þeim umtalsvert sem látast eftir ofneyslu fentanýls og annarra sterkra ópíóíðalyfja. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt ópíóíðafaraldurinn í Bandaríkjunum þjóðarskömm og lýsti yfir neyðarástandi í lýðheilsumálum vegna þess.