Sigurður Einarsson var meðal helstu samstarfsmanna Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Þetta kemur fram í bók um forsetann sem Guðjón Friðriksson skrifaði. Í gær var Sigurður dæmdur í 4 ára fangelsi.

Það kom fram í hádegisfréttum að Guðni Ágústsson, formaður orðunefndar, telur mikilvægt að fara yfir þá stöðu sem komin er upp nú, þegar handhafi fálkaorðunnar hefur verið dæmdur í fangelsi.  Forseti Íslands sæmdi Sigurð Einarsson riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu á nýjársdag 2007. Sigurður sem þá var stjórnarformaður Kaupþings, fékk orðuna fyrir forystu í útrás íslenskrar fjármálastarfsemi. Tæpum tveimur árum síðar sömdu Kaupþingsmenn við Sjeik Mohamed Bin Khalifa AL-Thani um kaup á fimm prósenta hlut í bankanum fyrir rúma 25 milljarða króna. Gjörningur sem hefur nú leitt til þess að fjórir stjórnendur bankans eru á leiðinni í fangelsi.

En Ólafur Ragnar nældi ekki aðeins orðu í barm Sigurðar á Bessastöðum 2007 því samband hans við Kaupþingsmenn var umsvifamikið í langan tíma. Í bókinni Saga af forseta sem Guðjón Friðriksson ritaði og kom út í nóvember 2008 kemur fram að Ólafur Ragnar hafi allt frá árinu 2000 unnið með Sigurði Einarssyni, bæði í þágu bankans og annarra málefna. Guðjón segir að telja megi Sigurð meðal helstu samstarfsmanna fosetans á síðari árum. Í bréfi til krónprinsins í Sameinuðu furstadæmunum í apríl 2008, segir Ólafur að hann hafi fylgst náið með þróun Kaupþingsbanka síðastliðin 10 ár. Bæði hann og íslenska þjóðin séu afar stolt af afrekum bankans. Bankinn sé í algerri forystu í íslensku efnahagslífi. Hann mæli eindregið með bankanum. Fagleg vinnubrögð stjórnenda bankans og starfsmanna hafi gert bankann að einum öflugasta banka Evrópu.

Í bók Guðjóns kemur fram að þegar átti að opna með vígsluathöfn útibú Kaupþings í Luxemborg hafi staðið til að efna til hátíðahalda 30. mars árið 2000. Kaupþingsmenn hafi lagt ofurkapp á að forsetinn yrði viðstaddur en þegar í ljós kom að hann var upptekinn þennan dag var ákveðið að hnika til opnunardeginum til 18. apríl. Ólafur ávarpaði samkomuna og sagði að bankinn þar væri nýtt skref í þróun nútímalegs hagkerfis á Íslandi.

Sigurður Einarsson segir í bókinni Saga af forseta, að forsetinn hafi sýnt þeim Kaupþingsmönnum gríðarlegan stuðning og að þeir hafi metið það mikils. Það hafi verið eftir því tekið og að það hafi gagnast þeim vel.

En það voru ekki allir hrifnir af Kaupþingsmönnum því í nóvember 2003 tók Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, upp á því að arka úr stjórnarráðinu og eftir endilöngu Austurstrætinu í útibú Kaupþings Búnaðarbanka eins og bankinn hét þá gagngert í þeim erindum að taka allt sem hann átti á bankabók þar, um 400 þúsund krónur, og eyða bókinni. Þetta gerði hann til að mótmæla fréttum af himinháum kaupréttarsamningum stjórnarformanns og forstjóra bankans. Einnig var hann ósáttur við að bankinn skyldi gera samninga við Jón Ólafsson í Skífunni sama dag og tilkynnt var að rannsókn væri lokið á skattamálum Jóns.

„Þetta hafði allt þann brag að verið væri að kaupa og selja þýfi í mínum huga. Og örfáum dögum síðar verðlauna menn sjálfa sig með því að afhenda hvor öðrum þrjú til fjögurhundruð milljónir fyrir ekki neitt. Þannig að þetta er eitthvað sem á ekki að geta gengið í þjóðfélagi okkar. Þetta er fordæmanlegt. Og auðvitað hljóta allir að velta fyrir sér sem eru þarna í viðskiptum hvort þeir geti verið í viðskiptum við stofnun sem hagar sér svona.“

Þegar Kaupþingsmenn voru 2003 að semja við Breta um kaup á Singer & Friedlanderbankanum höfðu ummæli forsætisráðherra borist bankamönnum í Bretlandi. Í bók Guðjóns kemur fram að þeir hafi þurft að sýna fram á að bankinn væri ekki rúinn trausti. Þeir sneru sér því til Ólafs sem hélt veglega veislu á Bessastöðum fyrir bresku bankamennina. Þar rómaði hann ágæti Kaupþings og bankinn var keyptur. 

Hér hefur aðeins verið drepið á nokkur atriði sem lúta að samskiptum forsetans við íslensku bankamennina og segja má að það sé alltaf auðvelt að vera vitur eftir á. Þetta var reyndar rakið á sínum tíma í hrunskýrslu Alþingis. Þar kemur reyndar fram að Ólafur Ragnar hafi átt fund eða samtal við Sjeik Mohamed Bin Khalifa AL-Thani sem átti að hafa keypt hlut í Kaupþingi. Fjallað er í skýrslunni um þátt forsetans í útrásinni og meðal annars spurt: Var embætti forseta Íslands misnotað í þágu útrásarinnar til að gera einstaka forkólfa og fyrirtæki trúverðug gagnvart erlendum fjárfestum?