Á fyrstu árum sjöunda áratugarins ferðaðist Erlendur Haraldsson prófessor um íraska Kúrdistan í fylgd með kúrdískum uppreisnarmönnum, sem þá háðu harðvítuga borgarastyrjöld við stjórnvöld í Bagdad. Hann fór víða og kynntist mörgum helstu leiðtogum Kúrda á þessum tíma.
Kúrdar eru með fjölmennustu þjóðum heims sem ekki eiga sér sjálfstætt ríki, og hafa um áratugaskeið barist fyrir aukinni sjálfsstjórn í þeim ríkjum þar sem þeir búa flestir — í Tyrklandi, Írak, Sýrlandi og Íran.
Mikil úlfúð ríkir milli tyrkneskra stjórnvalda og kúrdískra andófsmanna, og í Írak og Sýrlandi hafa hersveitir Kúrda verið í eldlínunni í baráttunni við vígasveitir hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Íslamskt ríki.
Erlendur Haraldsson, prófessor emeritus í sálfræði við Háskóla Íslands, er án efa meðal þeirra Íslendinga sem kynnst hafa kúrdísku þjóðinni best.
Erlendur kynntist fyrst Kúrdum þegar hann var í Þýskalandi árið 1961, þar sem hann var við nám og skrifaði auk þess fyrir dagblöð hér heima. Þegar hann nokkru síðar ákvað að leggja af stað í ferðalag um Austurlönd nær hvöttu kúrdískir kunningjar hans til að heimsækja heimahaga þeirra, íraska Kúrdistan.
Það var þó hægara sagt en gert, þar sem á þessum tíma geisaði borgarastyrjöld milli uppreisnarmanna Kúrda og íraskra stjórnvalda.
Vera Illugadóttir ræddi við Erlend um ferðir hans og kynni af kúrdískum uppreisnarmönnum, og stöðu Kúrda í dag, í Samfélaginu á Rás 1.
Kúrdíski uppreisnarleiðtoginn Mustafa Barzani með mönnum sínum í fjöllum Kúrdistans. Mynd frá 1965. Á myndinni hér að ofan má sjá Erlend og Barzani árið 1964.