Yfir árið anna blómabændur allt að áttatíu prósentum af eftirspurn hér á landi, en eiga langt í land á stórum dögum eins og valentínusardegi og konudegi. Þessir dagar eru okkar loðnuvertíð, segir garðyrkjubóndi.

Blómabændur eiga langt í land með að anna eftirspurn á valentínusardag og konudag, sem er enn langvinsælasti dagurinn til að gefa blóm. 

Hvað ertu búin að stinga þig á mörgum þyrnum í gegnum tíðina? „Jahh, ég hef ekki talið það sko. En það er nú örugglega mikið, þess vegna erum við að reyna að verja okkur en síðan fær maður skráp,“ segir Margrét Sverrisdóttir, garðyrkjufræðingur.

Þannig þú ert hætt að finna fyrir því? „Já liggur við, ég er allavega ekki jafn viðkvæm og aðrir,“ bætir hún við en hún skilur ekki af hverju rósirnar eru vinsælastar af því henni finnst gerberur miklu fallegri. 

„Þetta er okkar loðnuvertíð. Það er bara þannig. Konudagur enn þá mikið stærri, en valentínusardagurinn er náttúrulega rósa-dagurinn,“ segir Axel Sæland, eigandi Garðyrkjustöðvarinnar Espiflatar.

Eruð þið að ná að anna eftirspurn? „Heilt yfir árið erum við að ná því að mestu leyti, en á valentínusardag og konudag erum við að ná langt í land með það. Bændurnir í landinu ná að anna yfir árið 80% af markaðnum,“ segir Axel jafnframt.

Gangið þið nærri ræktuninni? „Að vissu leyti en við plönum okkur langt fram í tímann. Eins og núna þegar að þessi törn er búin þá er bara plantað út og fyllt í húsin fyrir mæðradaginn í maí,“ segir Axel.

„Við eigum bara að nýta þessa daga sem ástæða er til þess að virkja ástina og hlúa að hvort öðru, koma heim með blómvönd og elda góðan mat. það þarf ekki alltaf að vera eitthvað rosalega mikið. Við erum á því að blóm gleðja, það er bara þannig, sérstaklega í þessu skammdegi. Það er bara gott að fá smá lykt og lit inn í lífið,“ segir Heiða Pálrún Leifsdóttir, sem er líka eigandi Garðyrkjustöðvarinnar Espiflatar.