„Þarna hefur fallið berghlaup og skýringin er væntanlega sú að rigningin undanfarnar vikur og mánuði hefur fyllt gamlar jarðskjálftasprungur og hugsanlega sprungur meðfram berggöngum,“ segir Finnbogi Rögnvaldsson jarðfræðingur um hvað mögulega geti skýrt hvers vegna stór grjótskriða féll úr Fagraskógarfjalli á Mýrum snemma í morgun.

Vatnið hafi mögulega myndað þrýsting milli hraunlaga sem hafi valdið því að stórt stykki úr fjallinu fellur niður á láglendið. Hann segir erfitt að meta hversu stór skriðan er. „Ég myndi halda að þetta væri með stærstu skriðuföllum eftir landnám.“

„Þetta eru bara hamfarir það er ekkert annað að segja um það," segir Finnbogi Leifsson, bóndi í Hítardal. Hann hefur helst áhyggjur af rennsli Hítarár. 

Tinna Kristín Finnbogadóttir í Hítardal, heyrði í skriðunni snemma í morgun en taldi að hún heyrði í þrumu, sem séu algengar þarna. „Ég rumskaði í nótt að það voru tveir krummar með mikil læti og svo komu drunur í kjölfarið og ég reyndar fór ekki á fætur. Það eru oft þrumur hérna og ég bara pældi ekkert meira í þessu. Þetta voru bara hljóð og ég hélt áfram að sofa.“

Eftir að ljóst varð hvað hafði gerst, fór Tinna að skriðunni ásamt fleirum til að kanna aðstæður og sjá hvort skriðan hefði stíflað ána. „Og sjáum að það er mikið lón þarna og það er búið að hækka í því. Við fórum aftur inn eftir tveimur tímum seinna og það er búið að hækka í því. Er þetta hrikalegt að sjá þetta? Þetta er alveg rosalegt. Við fengum að sjá drónamyndir sem einn nágranni okkar tók og þá sést þetta rosalega vel úr lofti og það er alveg þurrt hinum megin, áin, hinum megin við skriðuna."

Finnbogi hefur búið í Hítardal í 63 ár og segir að þetta sé eitthvað sem hann hefði aldrei getað ímyndað sér að gæti gerst.  „Nei bara alls ekki. Það er varla að ég trúi þessu ennþá en ég sé þetta þannig að ég verð líklega að gera það.“

Hann segist hafa áhyggjur af rennsli árinnar, bæði út af farveginum sem áin gæti leitað í og laxveiðinni, en áin er landsþekkt laxveiðiá.  

Jón Sigurður Ólafsson yfirlögregluþjónn á Vesturlandi flaug yfir skriðuna með þyrlu Landhelgisgæslunnar í dag. Hann segir að breiddin á skriðunni sé meira en kílómetri. Hún hafi hlaupið fram um einn og hálfan kílómetra. Reynt hafi verið að meta hvaða leið áin geti fundið sér niður úr.  Það líti ekki út fyrir að líkur séu á sprengiflóði. Áin fari aldrei yfir stífluna og eigi ekki eftir að geta rutt sér leið gegnum stífluna. Hann hvetur fólk til að fara að með gát. 

Björgunarsveitir voru kallaðar út til að tryggja öryggi og loka vegum en voru að draga úr starfseminni á sjötta tímanum. 

Jóhann Bjarni Kolbeinsson fréttamaður og Vilhjálmur Þór Guðmundsson tökumaður hafa verið í Hítardal í dag og má horfa á sjónvarpsfrétt með viðtölum í spilaranum hér fyrir ofan.