„Ég er með ígræðslur í fótum sem tengjast jarðskjálftamælum á netinu. Hvenær sem jarðskjálftar fara af stað á jörðinni skynja ég titring í líkamanum,“ segir sæborg-aktívistinn og listamaðurinn Moon Ribas sem kynnti framúrstefnulegar hugmyndir um sjálfshönnun í Hörpu í tengslum við HönnunarMars.

Listakonan lét græða skynjara í iljar sínar og finnur þannig fyrir öllum jarðskjálftum á jörðinni og tunglinu í rauntíma. „Ég kalla þetta jarðbylgjuskynið, að skynja hreyfingar jarðskorpunnar í gegnum titring í líkama mínum; og ég lít á þetta sem listaverk,“ segir Moon. „Sæborg-listamenn nýta líkamann til framlengingar á skynjuninni en til eru margir líkams-hakkarar þar sem líkaminn er markmiðið. Markmið mitt snýst ekki um líkamann heldur hugann; hvernig ég móta hugann og veruleikann. Og til þess nota ég líkamann.“

Tannsamskiptakerfið

Sæborg-listamenn fara óvenjulegar leiðir til að eiga samskipti sín á milli. „Eitt verkið snerist um að láta koma fyrir tönn í munni mér og kollegi minn lét svo koma annarri tönn fyrir í munni sér. Í hvert skipti sem ég smellti skynjaði hann titring og ég svo sömuleiðis þegar hann smellti. Við kunnum bæði mors-stafrófið svo að við gátum talað saman með því að smella með munninum. Við kölluðum þetta tannsamskiptakerfið; þetta var mjög frumstætt, eins og við fórum að, en í raun má þróa þetta kerfi frekar og mætti nota fyrir fólk sem getur ekki hreyft sig eða nota samskiptaaðferðina í geimnum því það þarf andrúmsloft til að eiga í samskiptum,“ segir Moon Ribas. 

Hún segir hugarfarsbreytingu þurfa gagnvart sæborg-listamönnum. „Samfélagið viðurkennir að líkamanum sé breytt í lækningaskyni en ég vona að í framtíðinni verði það talið sjálfsagt að breyta líkamanum í listrænu augnamiði og til að skynja veruleikann á annan hátt. Nú er það viðurkennt að vera með tattú; það er viðtekið að breyta húðinni af fagurfræðilegum ástæðum eða þá nefinu; fólk er þegar farið að leika sér með líkamann og þetta er bara önnur leið til að gera það. Svo að þetta er ekki svo fjarlægur raunveruleiki.“